Undanfarna daga og vikur hefur veðrið leikið við Grundfirðinga.  Bjartviðri, sól og hlýindi hafa einkennt veðrið um nokkurt skeið.  Helst er að vantað hafi rigningu stund og stund fyrir gróðurinn sem líður fyrir langvarandi þurrkatíð.

 

Góða veðrið er nýtt til hins ýtrasta til þess að framkvæma og koma sem mestu í verk.  Unnið er að byggingu frystihótels á landfyllingu við Grundarfjarðarhöfn og er það farið að taka á sig mynd enda er áætlað að það taki til starfa í haust.  Fyrirhuguð er bygging saltskemmu í sumar á landfyllingu við Grundarfjarðarhöfn sem verður komin í fulla notkun með haustinu.  Samkaup eru að byggja yfir verslun sína í Grundarfirði og verður hún væntanlega komin í nýja húsnæðið í haust eða vetur.  Fólk dyttir að húsum sínum og lóðum og drífur í að ljúka við nýframkvæmdir á meðan góða veðrið varir.  Bæjarfélagið er að ganga frá nokkrum opnum svæðum sem unnið var í á síðasta ári og fyrr með jöfnun, þökulagningu og sáningu grasfræja.  Fyrirhuguð er gerð gangstétta við nýjar götur og endurnýjun eldri gangstétta að hluta.