Sundlaugin er nú ekki lengur "stærsti kaldi potturinn" á landinu! Í vikunni sem leið kom Slökkvilið Grundarfjarðar og tæmdi laugina til þess að hægt væri að þrífa hana og setja í stand fyrir skólasund og sumaropnun. Aðalsteinn forstöðumaður íþróttamannvirkja var á dögunum að þrífa laugina og skipta um botnristar og naut aðstoðar Hallgríms sonar síns við það. Hallgrímur hefur aðstoðað pabba sinn í nokkur ár við þrif á lauginni og þetta er einn af skemmtilegustu dögum ársins hjá honum. 

Líklegt er að opnun yfir veturinn, með köldu laugarvatni, fari betur með búnaðinn. Ef við höldum áfram með að hafa laugina opna á veturna, með klór, þarf jafnvel ekki lengur að tæma hana á vorin til þess að geta opnað. Þá verður hægt að opna með sólarhringsfyrirvara ef að það þarf ekki að fara í viðhald eða viðgerðir. 

Opnunartíminn er virka daga 07:00-08:00 og 17:00-21:00. Laugardaga 13:00-17:00.

Miðað  við núverandi reglur er takmörkunin 12 í hvorum klefa. Það er fjöldinn í klefunum sem ræður leyfilegum fjölda miðað við starfsleyfi sundlaugar. 

Við biðjum fólk samt sem áður að huga að einstaklingsbundnum sóttvörnum og virða tveggja metra regluna.

Mánudagurinn 26. apríl var fyrsti opnunardagur sundlaugar (með heitu vatni), samhliða skólasundi, og komu yfir 50 manns í sund, enda veðrið alveg yndislegt.