Þriðjudaginn 5. maí n.k. hefjast útsendingar Svæðisútvarps Vesturlands og Vestfjarða á vegum Ríkisútvarpsins. Um langt skeið hefur verið haldið úti öflugum svæðisútsendingum á Norðurlandi, Austurlandi og Vestfjörðum. Ítrekað hafa komið fram óskir frá íbúum Vesturlands að njóta sömu þjónustu. Nú hefur verið ákveðið að verða við þessum óskum og koma á sameiginlegum svæðisútsendingum fyrir hluta Vesturlands og Vestfirði. Í fyrsta áfanga ná útsendingarnar yfir norðanvert Snæfellsnes, þar með talið þéttbýlisstaðina Rif, Hellissand, Ólafsvík, Grundarfjörð og Stykkishólm, og alla Dalasýslu. Í framhaldinu verður hugað að því að breyta útvarpssendum þannig að útsendingin náist á sunnanverðu Snæfellsnesi og í Borgarfirði.

Með þessu móti er hægt að efla þjónustuna án þess að auka mikið kostnaðinn. Nú þegar er mikið samstarf milli fréttamanna RÚV á Vestfjörðum og Vesturlandi og því ætti fyrirhuguð breyting að ganga vel.

Svæðisútsendingarnar yfirtaka útsendingu Rásar 2 frá klukkan 17.30 – 18.00, þriðjudaga til föstudaga. Þriðjudaginn 5. maí hefst útsendingin hinsvegar strax að loknum útvarpsfréttum klukkan 17.00 í tilefni dagsins. Útsendingar verða til skiptist úr hljóðverum RÚV í Borgarnesi og á Ísafirði en alla daga verður sent út efni af öllu svæðinu.

Í Svæðisútvarpi Vesturlands og Vestfjarða verða sagðar fréttir, viðtöl og efni um mannlíf á  Vesturlandi og Vestfjörðum. Stefnt er að því að í framtíðinni verði fréttaflutningur og dagskrárgerð fyrir landsrásirnar efldur enn frekar.

Svæðisútvarp Vesturlands og Vestfjarða er á vegum Fréttastofu RÚV. Starfsmenn eru Gísli Einarsson fréttamaður á Vesturlandi, Guðrún Sigurðardóttir, fréttamaður á Ísafirði og Jóhannes Jónsson tæknimaður. Þá vinnur Guðmundur Gunnarsson, fréttamaður, við Svæðisútvarpið í sumar. Ennfremur er gert ráð fyrir að fleiri starfsmenn Fréttastofu RÚV komi að útsendingunum eftir þörfum. Auglýsingastjóri er Hafdís Erla Bogadóttir.

Fréttastjóri RÚV er Óðinn Jónsson.