Svana Björk Steinarsdóttir er íþróttamaður Grundarfjarðar árið 2015

Íþróttamaður Grundarfjarðar árið 2015 var heiðraður á aðventudegi kvenfélagsins Gleym mér ei í gær, fyrsta sunnudag í aðventu. Fjórir glæsilegir íþróttamenn voru tilnefndir en blakkonan Svana Björk Steinarsdóttir bar sigur úr býtum og nafnbótina íþróttamaður Grundarfjarðar 2015. Systir Svönu Bjarkar, Sandra Rut, tók við verðlaununum fyrir hönd Svönu en íþróttakona ársins var stödd á Austfjörðum að keppa í blaki.

Blakráð UMFG tilnefndi Svönu Björk sem er 16 ára gömul og lykilleikmaður í liði UMFG sem keppir nú í fyrsta sinn í MIZUNO úrvalsdeildinni í blaki og var nú annað árið í röð í U-17 unglingalandsliðinu. Landsliðið fór nýlega til Kettering í Englandi og náði þar besta árangri sem íslenskt U-17 landslið hefur náð á alþjóðlegu móti en liðið hafnaði í öðru sæti. Svana Björk er prúður og agaður leikmaður sem er öðrum fyrirmynd jafnt innan vallar sem utan.

 

Sandra Rut Steinarsdóttir (fyrir hönd Svönu Bjarkar Steinarsdóttur), Heimir Þór Ásgeirsson, Guðlaug Guðmundsdóttir (fyrir hönd Berglindar Óskar Kristmundsdóttur) og Birgir Guðmundsson

Aðrar tilnefningar hlutu Berglind Ósk Kristmundsdóttir knattspyrnukona, Birgir Guðmundsson skotíþróttamaður og Heimir Þór Ásgeirsson golfari.

Grundarfjarðarbær óskar þessu frábæra íþróttafólki hjartanlega til hamingju með glæsilegan árangur í sínum íþróttagreinum.