Skessuhorn 10. mars 2010:

Svei attan! er fyrirsögn á heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu í dag frá eigendum og starfsfólki Guðmundar Runólfssonar hf. í Grundarfirði. Þar segir að ríkisstjórnin og meirihluti hennar á Alþingi sé í þann veginn að lögfesta breytta úthlutun aflaheimilda fyrir karfa sem vegi alvarlega að rekstrargrundvelli fyrirtækisins því ekkert annað fyrirtæki á Íslandi sé jafn háð veiðum og vinnslu gullkarfa og Guðmundur Runólfsson hf. Þess vegna bitni breyttar úthlutunarreglur sérlega illa á því. Þá hefur bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar sent frá sér ályktun um sama mál þar sem Alþingi er hvatt til þess að staldra við og skoða nánar fyrirhugaða skiptingu á veiðiheimildum fyrir karfa.

Þá segir í auglýsingu G Run hf. að úthlutun aflaheimilda fyrir karfa hafi tekið sameiginlega til tveggja karfategunda, djúpkarfa og gullkarfa, allt frá því kvótakerfið hafi verið sett á árið 1984. Hafrannsóknastofnun hafi lagt til að aflamarki yrði úthlutað sérstaklega fyrir hvora tegund og nú eigi það að gerast. Ráðamenn Guðmundar Runólfssonar hf. telji eðlilegt að úthluta aðskildum aflaheimildum fyrir hvora tegund og gera enga athugasemd við það. Hins vegar sé fráleitt að ætla síðan að úthluta aflaheimildum hlutfallslega á alla sem fá karfaheimildir og styðjast ekki við aflareynslu. Engin rök séu fyrir slíkum vinnubrögðum sem í raun séu óskiljanlegt stílbrot á fisveiðistjórnuninni.

 

Síðan er sagt frá því að síðast hafi aflaheimildir fyrirtækisins af karfa á Íslandsmiðum numið 2,1% aflahlutdeilda eða ríflega 1.000 tonnum á yfirstandandi fiskveiðiári. Gullkarfi sé eina karfategundin sem G.Run. hafi veitt og unnið undanfarin fimm ár. Afurðir gullkarfa standi undir 44% af framleiðsluverðmætum fyrirtækisins á þessum fimm árum og slíkt hlutfall þekkist ekki í neinu öðru sjávarútvegsfyrirtæki hérlendis. Orðrétt segir síðan í auglýsingunni: “Stjórnvöld og Alþingi ætla sér nú að skerða með lögum aflaheimildir Guðmundar Runólfssonar hf. í gullkarfa um á fjórða hundarð tonn, sem svarar til tveggja til þriggja vikna starfsemi í fiskvinnslunni í Grundarfirði en úthluta fyrirtækinu djúpkarfa í staðinn, fiski sem það hefur engin skip til að veiða.” Síðan er spurt hvort verið sé að tryggja hagsmuni stóru frystiskipanna á kostnað minni skipa? Í niðurlagi auglýsingarinnar kemur fram að niðurstaðan geti því miður ekki orðið önnur en sú að Guðmundur Runólfsson hf. tapi aflaheimildum í gullkarfa. Spurningin sé eingöngu hve mikið tapist og þar með hve mikið áfall Grundarfjörður þurfi að þola vegna áforma ríkisstjórnar og Alþingis.

Í ályktun Grundarfjarðarbæjar er bent á að fyrirtækið Guðmundur Runólfsson hf. og fleiri útgerðir í Grundarfirði hafi á undanförnum árum eingöngu veitt gullkarfa og eðlilegt sé að við skiptingu á karfakvótanum verði tekið mið af veiðireynslu og getu til að veiða úthlutaðan kvóta. “Að óbreyttu mun samþykkt frumvarpsins á alþingi hafa mjög neikvæð áhrif á atvinnulíf í Grundarfirði, sem þegar er að kljást við minni aflaheimildir eins og mörg önnur byggðarlög,” segir í samþykkt bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar.