Daganna 21-23. október fóru 24 fálkaskátar Skátafélaginu Erninum - Æskulýðsfélagi Setbergssóknar í sveitarútilegu sína sem var haldin á hinum forna þingstað Þingvöllum í Helgafellssveit.  

Eftir að hafa komið sér fyrir og farið í næturleik á föstdagskvöldinu var haldið í myrkrinu að Blótsteininum til að halda setningu útilegunnar. Það fór smá hrollur um suma við Blótsteininn en allt slíkt hvarf sem dögg fyrir sólu þegar inn var komið og rjúkandi heitt skátakakó og súkkulaðisnúðar biðu þeirra. Við tók herbergjakvöld þar sem hvert herbergi var með dagskrá í sínu herbergi og kenndi þar ýmissa grasa, diskótek, söngatriði, spákona og draugahús. Á laugardeginum var fjölbreytt dagskrá föndur, spil og veiðimennska og póstaleikur með ýmsum þrautum eins og fjársjóðsleit, rúnaskrift og skotfimi með heimagerðri teyjubyssu. Að sjálfsögðu voru fastir liðir skátaútilegunnar til staðar eins og skálaskoðun, kvöldvaka, göngutúr og að ógleymdir vígslu fimm nýrra fálkaskáta. Í öllu sem skátarnir tóku sér fyrir hendur í útilegunni þá var allt til fyrirmyndar og þeir allir héldu í heiðri aðra grein skátalaganna: Skáti er glaðvær. Það eru forréttindi að fá að umgangast svona flott ungt fólk.