Þessi fallega mynd var tekin af Sverri Karlssyni og hlaut fyrstu verðlaun í Ljósmyndasamkeppni Grundarfjarðarbæjar árið 2015

Úrslit í hinni árlegu ljósmyndasamkeppni Grundarfjarðarbæjar voru tilkynnt á aðventudegi kvenfélagsins Gleym mér ei í gær, fyrsta sunnudag í aðventu. Tólf fallegar myndir voru sendar inn í keppnina en þemað í ár var „gestir og gangandi“. Það var áhugaljósmyndarinn Sverrir Karlsson sem sigraði í keppninni og átti einnig myndina í þriðja sæti keppninnar. Í öðru sæti varð Dagný Rut Kjartansdóttir.

Það er óhætt að segja að Sverrir hafi fengið ágætis jólabónus þetta árið því hann fékk að launum 50.000 krónur fyrir fyrsta sætið og 20.000 krónur fyrir það þriðja. Hann er staddur á Borgarspítalanum þessa dagana en var að vonum hæstánægður þegar hann fékk afhentan blómvönd frá Grundarfjarðarbæ fyrir árangur sinn í keppninni.

 

Pabbar - þessi skemmtilega mynd sem er tekin af Dagnýju Rut hlaut önnur verðlaun í keppninni

Dagný Rut fékk að launum 30.000 krónur fyrir annað sætið auk blómvandar.

Dómnefndina í ár skipuðu þau Tómas Freyr Kristjánsson, Berglind Jósepsdóttir og Unnur Birna Þórhallsdóttir og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir sín störf.

Fólk við útsýnisskífu, tekin af Sverri Karlssyni varð í þriðja sæti í keppninni

Grundarfjarðarbær þakkar þátttakendum fyrir innsendar myndir í keppnina og óskar sigurvegurunum innilega til hamingju.

Sverrir Karlsson var snarbrattur á Borgarspítalanum þegar hann tók við blómvendi frá Grundarfjarðarbæ að launum fyrir frábæran árangur í Ljósmyndasamkeppninni.

Dagný Rut var mætt í Samkomuhúsið og tók við verðlaunum fyrir annað sæti í keppninni.