Á sumardaginn fyrsta opnar Sigríður Erla Guðmundsdóttir myndlistarkona sýningu á verkum sínum. Sýningin er að efninu til að mestu unnin úr leir frá Fagradal á Skarðströnd en hugmyndirnar eru sóttar hingað og þangað. Þó má sjá  þráð sem liggur til Breiðafjarðar bæði til sjávar og lands. Má nefna portret af Breiðfirðingum þekktum sem óþekktum, forvitna fugla sem einu sinni  sátu á skerjum og vissu ekki annað. Tómataþroskarar og ávaxtaskálar sem spruttu upp úr hrúðurkörlum og júgrum. Beinahrúgu úr fínu frönsku postulíni og sterkleg bein úr Dölum.

Um árabil hefur Sigríður Erla unnið með íslenskan leir úr Dölum. Unnið úr honum m.a. gólfflísar en leirinn er mjög hentugur í slíkt. Einnig hefur hún ásamt nemendum í Listaháskóla Íslands, MHÍ og Myndlistaskólanum í Reykjavík unnið að tilraunum með íslensk jarðefni sem keramik.

 

Sigríður Erla hefur áður Sýnt í Norska húsinu. Árið 1998 framdi hún þar ásamt fleirum gjörning, “Dýrðlega veislu” og tók þátt í samsýningu með Jónu Guðvarðardóttur og Kristínu Ísleifsdóttur. 

 

Sigríður Erla notar íslenskan leir sem meginefni í verkum sínum. Hún hefur að mestu unnið að myndlist en er nú í auknum mæli að snúa sér að hönnun og framleiðslu úr leirnum.

Á þessu ári mun Sigríður Erla hefja framleiðslu á vöru þar sem meginhráefni er leirinn úr Ytri-Fagradal. Fyrirtækið Leir 7 ehf. hefur nýlega verið stofnað og verður starfrækt í Stykkishólmi. Hafin verður framleiðsla á sérhannaðri vöru úr leirnum undir stjórn Sigríðar Erlu. Vöruhönnuðir koma til samstarfs og mun fyrsta afurðin koma á markað í haust

 

Sýningin í Norska húsinu stendur í 5 daga, frá fimmtudeginum 24. apríl til og með þriðjudagsins 29. apríl og er opin alla dagana frá kl. 14.00-18.00 og eru allir hjartanlega velkomnir.