Listakonan Josée Conan frá Paimpol, vinabæ Grundarfjarðar í Frakklandi, var viðstödd opnun sýningar sinnar í Sögumiðstöðinni í gær. Verk hennar af fiskum og öðru sjávarfangi hafa vakið mikla athygli og var svo sannarlega við hæfi að opna sýninguna á sjómannadaginn hér í Grundarfirði.

 

Vel var mætt við opnunina þar sem Þorsteinn Steinsson, bæjarstjóri, hélt stutta tölu þar sem hann bauð fólk velkomið og kynnti listakonuna. Auk þess færði hann Josée púða að gjöf frá Grundarfjarðarbæ. Púðinn er búinn til af Hrafnhildi Jónu Jónasdóttur í KRUMS en hún hafði prentað mynd eftir Josée á púðann og vakti gjöfin mikla lukku. Hrafnhildur hannaði að auki uppsetningu sýningarinnar.

 

 

Mikill áhugi er fyrir myndum Josée og verða nokkur verka hennar til sölu í Sögumiðstöðinni. Sýningin mun vera uppi til 20. júní nk.