Þær Dagbjört Lína, Kristín og Hrafnhildur Jóna opnuðu fyrir skemmstu sýninguna Kvennaverk í Sjálfstæðishúsinu að Grundargötu 24. Þar sýna þær hátt í 40 verk sem öll eru unnin sérstaklega fyrir þessa sýningu. Dagbjört Lína og Kristín sýna bæði gler- og leirmyndir. Þær eru einnig að koma af stað framleiðslu á matarstelli og öllum tilheyrandi fylgihlutum úr gleri. Þar getur kaupandinn tekið þátt í hönnun matarstellsins og komið með sínar óskir um útlit og fleira.

Hrafnhildur Jóna sýnir tölvumyndir á skjávarpa. Hægt er að kaupa þessar myndir í mismunandi útfærslum og  samráði við Hrafnildi Jónu getur kaupandinn valið sína útfærslu á verkunum, t.d. er hægt að prenta á pappír, tau og striga.

Sýningin Kvennaverk er spennandi sýning. Þær Dagbjört Lína, Kristín og Hrafnhildur Jóna eru að fást við nýja hluti í listsköpun sinni og eru allir hvattir til að skoða sýningu þeirra. Athygli er vakin á að sýningin er opin frá kl. 20:00-22:00 fimmtudag til föstudags og frá kl. 14:00 til 16:00 á laugardag en lýkur þá.