Svæðisskipulag fyrir Snæfellsnes hefur verið í vinnslu síðan á vormánuðum 2012 og liggur nú fyrir tillaga sem svæðisskipulagsnefnd hefur samþykkt að kynna fyrir almenningi í samræmi við 2. mgr. 23. gr. skipulagslaga. Tillöguna má nálgast hér: ssk-snaef.alta.is.

Íbúar Snæfellsness og aðrir hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér tillöguna og senda ábendingar eða athugasemdir sínar til svaedisgardur@svaedisgardur.is fyrir 5. maí nk. 

Svæðisskipulagið er það sem kalla má stefnumarkandi skipulagsáætlun (strategic spatial plan). Það þýðir að skipulagið setur fram heildstæða almenna stefnu sem segir í hvaða átt menn ætla að ganga og í grófum dráttum hvernig, en útfærir ekki landnotkun eða grunngerð á uppdrætti eða setur nákvæma skipulagsskilmála.  Öll kort með tillögunnu eru því til skýringar en ekki bindandi.

Stefnan var unnin í nánu samstarfi við fulltrúa úr atvinnulífinu og frá félagasamtökum - sem nú hafa stofnað Svæðisgarðinn Snæfellsnes. Stýrihópur um stofnun svæðisgarðs sat alla fundi svæðisskipulagsnefndar og fylgdist með vinnunni. Stefnan er því í reynd sóknaráætlun Snæfellinga, um það hvernig þeir - sveitarfélögin og atvinnulífið í samvinnu við íbúa - hyggjast stuðla að því í sameiningu að þróun atvinnulífs og byggðar á Snæfellsnesi taki í auknum mæli mið af sérkennum svæðisins m.t.t. náttúru, menningar og mannauðs.

Skipulagstillagan var unnin á grundvelli ítarlegrar greiningar á landslagi, sögu og staðaranda Snæfellsness sem birtist m.a. í fjölmörgum kortum sem finna má í Verkfærakistu Snæfellinga á þessum vef.  Tillagan byggir jafnframt á samráði við þrjá vinnuhópa sem í sátu fulltrúar bænda, smábátaeigenda, ferðaþjónustu, stéttarfélaga, útgerðar, fiskvinnslu, iðnaðar, listgreina, handverks, veiði, þjóðgarðs, safna, rannsóknar- og þjónustustofnana, skóla o.fl.  Tilgangurinn með skipun hópanna var að fá sjónarmið og hugmyndir sem flestra og því var leitað til fólks úr ýmsum atvinnugreinum og sviðum samfélagsins, hvaðanæva af svæðinu. Það var gert út frá greiningu á hagsmunaaðilum og mögulegum samstarfsaðilum sem tengjast viðfangsefnum svæðisskipulagsins á einn eða annan hátt. 

Svæðisskipulagið er samræmingargrundvöllur fyrir gildandi stefnu og fjölmörg fyrri og núverandi verkefni á sviði atvinnu-, umhverfis- og félagsmála, sem unnið er að eða unnið hefur verið að á Snæfellsnesi og Vesturlandi mörg undanfarin ár. Þessi verkefni voru rýnd og flokkuð eftir þemum svæðisskipulagsins þannig að unnt væri að taka mið af þeim við stefnumótunina. Margir eiga að kannast við fingraförin sín í svæðisskipulagstillögunni þar sem í henni er dregin saman á einn stað, stefna og hugmyndir sem hafa komið fram í fjölmörgum stefnuskjölum og verkefnum á liðnum árum. Með því að draga áherslur fyrir marga málaflokka saman á einn stað og samræma þær er leitast við að stuðla að því að allir sigli í sömu átt.

Í byrjun maí verður farið yfir athugasemdir sem kunna að hafa borist við þessa kynningu og gengið frá svæðisskipulagstillögu til formlegrar auglýsingar en þá gefst aftur 6 vikna frestur til að kynna sér tillöguna og gera við hana athugasemdir. Sú auglýsing verður fyrri hluta sumars þegar Skipulagsstofnun hefur gefið umsögn sína eins og lög gera ráð fyrir.