Almennt hefur tekist vel til í starfsemi Fjölbrautaskóla Snæfellinga (FSN) og að fjöldi nemenda hafi orðið nokkru meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir sem bendi til þess að skólinn hafi skapað sér tiltrú og uppfyllt þær væntingar sem til hans voru gerðar. Þetta kemur fram í úttekt sem gerð hefur verið á starfsemi skólans.

Nýlega er lokið úttekt sem menntamálaráðuneyti lét gera á Fjölbrautaskóla Snæfellinga (FSN). Úttektin var unnin af Trausta Þorsteinssyni frá skólaþróunar-sviði Háskólans á Akureyri og Ásrúnu Matthíasdóttur frá kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík. Miðaðist úttektin við fyrstu þrjú árin í starfsemi skólans en hann tók tók til starfa haustið 2004.

Frétt á vef Mbl.is

Í helstu niðurstöðum úttektarinnar kemur meðal annars fram að almennt hafi vel til tekist í starfi FSN á fyrstu starfsárum hans. Einnig segir að fjöldi nemenda hafi orðið nokkru meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir sem bendi til þess að skólinn hafi skapað sér tiltrú og uppfyllt þær væntingar sem til hans voru gerðar.

Í úttektarskýrslunni kemur jafnframt fram að allt skipulag skólans taki mið af því að honum sé ætlað að vera leiðandi í breyttum kennsluháttum og í notkun upplýsingatækni með áherslu á dreifmennt. Kennsluhættir virðist styðja það hlutverk skólastarfsins að þjálfa nemendur í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum og efla ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, umburðarlyndi og sjálfstraust nemenda.

Helstu úrbætur sem úttektaraðilar benda á að skólinn þurfi að vinna að eru meðal annars að endurskoða þurfi með hvaða hætti fyrsta árs nemendur séu leiddir inn í starfshætti skólans, að námsmat hafi lítið þróast í takt við breytta kennsluhætti og að mikilvægt sé að skólinn hafi reglubundið og markvisst mat á starfinu. Einnig er lagt til að skólinn kanni ástæður brottfalls í skólanum sem úttektaraðilar telja að kunni að einhverju leyti að stafa af því að skólinn býður ekki nema að mjög litlu leyti upp á starfsnám.

Úttektarskýrsluna má nálgast á vef menntamálaráðuneytis.