Það er Þorláksmessustemmning í Grundarfirði, fallegt og stillt veður, um 10 stiga frost og skötuilminn leggur yfir bæinn – flestum til yndis.... nóg um það.

Í veitingahúsinu Krákunni gæddu gestir sér á kæstri skötu í hádeginu og fyrirtæki Guðmundar Runólfssonar hf. bauð starfsmönnum sínum og fjölskyldum þeirra upp á skötu og saltfisk í hádeginu, eins og gert hefur verið undanfarin ár. 

 

Um 100 manns mættu í skötuveislu hjá Guðm. Runólfssyni hf.

Í KB-banka var jólalegt þar sem Þorkell Máni Þorkelsson, ungur grundfirskur tónlistarmaður, lék jólalög á hljómborðið sitt fyrir gesti og gangandi. Starfsfólk bæjarskrifstofunnar á efri hæðinni naut góðs af.

 

Þorkell Máni

Fallegt veður, -10 °c

Flestar verslanir eru opnar til kl. 23 í kvöld og kl. 23 hefst orgel- og helgistund í Grundarfjarðarkirkju. Það eru þau séra Elínborg Sturludóttir, sóknarprestur Grundfirðinga, og Friðrik Vignir Stefánsson organisti og kórstjóri kirkjukórsins, sem sjá um helgistundina. Grundfirðingar eru hvattir til að líta við í kirkjunni sinni og njóta kyrrðarstundar eftir annasama daga, svona rétt áður en jólin ganga í garð.

 

Gleðileg jól!

Grundarfjörður á Þorláksmessu