Í kvöld er komið að einum af hápunktunum í menningarlífi Grundfirðinga þegar þorrablót hjónaklúbbsins verður haldið í allri sinni árlegu dýrð, með tilheyrandi heimatilbúinni skemmtidagskrá.

Hjónaklúbbur Eyrarsveitarer merkilegt fyrirbæri og var stofnaður í kringum 1965. Hann hefur án nokkurs vafa verið mikil vítamínsprauta í menningar- og félagslíf Grundfirðinga, ekki síst á sínum fyrstu starfsárum, þegar minna var um afþreyingu en nú er, samgöngur voru lakari og þörf fólks ekki minni en nú til skemmtunar og félagsskapar.

Það er svo auðvitað tímanna tákn að í dag er hjónaband ekki skilyrði aðildar að klúbbnum, sambúð og fyrrverandi sambúð dugar, auk þess sem einstaklingar geta nú mætt á þorrablót séu þeir a.m.k. orðnir 25 ára gamlir. 

Til heiðurs Hjónaklúbbi Eyrarsveitar fyrr og síðar, öllum hjónum og ,,næstum því hjónum”, sem og einstaklingum sem ætla á þorrablótið, eru hér látin flakka með til gamans nokkur gullkorn sem frægt fólk og ófrægt hefur látið falla um hjónabandið, konur og karla.

Það skal tekið fram að eftirfarandi texti hefur ekki verið ritskoðaður af jafnréttisnefnd bæjarins, en reynt er að halla ekki um of á annað kynið. 

  • Hjónaband er samband tveggja, þar sem annar aðilinn man aldrei afmælisdaga, en hinn gleymir þeim aldrei.
  • Konan mín á tvo skápa fulla af engu til að fara í.
  • Báðir aðilar hafa sama hlutverki að gegna í hjónabandinu; að gera eiginmanninum allt til geðs.
  • Giftu þig ekki vegna peninga, það er ódýrara að fá þá lánaða (skoskt máltæki).
  • Efastu aldrei um dómgreind konunnar þinnar – minnstu þess hverjum hún giftist.
  • Eiginmaður á ávallt að koma fram við konuna sína sem hann væri frambjóðandi, en hún kjósandi.
  • Hamingjusamt hjónaband er hús sem reisa verður daglega.

Góða skemmtun á þorrablóti!