Á síðasta fundi bæjarstjórnar var samþykkt samhljóða að taka upp þriggja tunnu sorpflokkun í Grundarfirði.

Gert er ráð fyrir að nýtt kerfi taki gildi í vor eða snemma sumars og verður það kynnt vandlega fyrir íbúum. Rétt er að taka fram að með þessu er verið að gefa Grundfirðingum kost á að hefja flokkun sorps, enginn er skyldugur að taka þátt í þessu þó vissulega sé mikilvægt að ná sem mestri þátttöku.

 

Aukin sorpflokkun hefur færst í vöxt undanfarið og er nú slík flokkun sorps í Stykkishólmi, Hveragerði, Flóahreppi, Kópavogi (Nónhæð), Fjallabyggð, Fljótsdalshéraði, Hvalfjarðarsveit o.fl. sveitarfélögum.

 

Fyrirkomulag verður þannig að allir fá nú þrjár sorptunnur, brúna, græna og gráa. Brúna tunnan er fyrir lífrænan úrgang, græna tunnan fyrir endurvinnanlegan úrgang og gráa tunnan fyrir sorp til urðunar.

 

Náist góður árangur og góð samstaða meðal íbúa um aukna sorpflokkun er gert ráð fyrir því að kostnaður við sorphirðu verði lægri en við núverandi fyrirkomulag.

 

 

Bókun bæjarstjórnar:

„Bæjarstjórn samþykkir að samið verði um viðauka við gildandi samning við Íslenska gámafélagið (ÍG) um sorphirðu í Grundarfirði. Í viðaukanum er gert ráð fyrir hirðu á tunnum fyrir lífrænan úrgang og endurvinnanlegan úrgang, ásamt því að jarðgera lífrænan úrgang. Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára. Að þeim tíma liðnum verði árangur verkefnisins metinn og sorphirða í Grundarfirði boðin út.

 

Með samþykkt viðaukans verður bæjarbúum gefinn kostur á að hefja flokkun sorps. Er þetta í fullu samræmi við stefnu bæjarins í umhverfismálum.

 

Íslenska gámafélagið hefur séð um alla sorphirðu bæjarfélagsins undanfarin ár og því er hér einungis um útfærslubreytingu á sorphirðunni að ræða. Ef góður árangur næst í endurvinnslu er gert ráð fyrir að kostnaður við sorphirðu verði lægri en við núverandi fyrirkomulag.

 

Mikilvægt er að leitað verði allra leiða til að minnka urðun og flutning sorps á urðunarstað í Fíflholt og þar með þann kostnað sem óhjákvæmilega myndi ella falla á bæjarbúa. Kostnaður við urðun fer hækkandi og með þessari breytingu á sorphirðu telur bæjarstjórn að hægt sé að stilla kostnaði við sorphirðu og urðun í hóf.

 

Kynningarmál verða í höndum Íslenska gámafélagsins í samstarfi við Grundarfjarðarbæ og verður lögð áhersla á víðtæka og vandaða kynningu gagnvart bæjarbúum.“