Grundarfjarðarbær sendir félagskonum í Kvenfélaginu Gleym-mér-ei góðar kveðjur á degi kvenfélagskonunnar, 1. febrúar, sem og kvenfélagskonum um allt land. Um leið er kvenfélagskonum þakkað fyrir ómetanleg störf þeirra í þágu íbúa og samfélags í áratugi.  

1. febrúar er stofndagur Kvenfélagasambands Íslands, árið 1930, og var dagurinn formlega gerður að degi kvenfélagskonunnar árið 2010 til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna.  

Texti af Facebook síðu Kvenfélagsins Gleym Mér Ei:

Kvenfélagið Gleym mér ei var stofnað 10. júlí 1932 og varð því 90 ára á síðasta starfsári. Í félaginu eru í dag 63 konur á öllum aldri og eru allar konur 16 ára og eldri velkomnar í félagið. 
Frá því félagið var stofnað hefur það ávallt stutt við og gefið til samfélagsins. Á síðasta starfsári gaf félagið t.d. til samfélagsins gjafir af ýmsum toga að verðmæti um 2 milljónir króna, sem er mjög gott fyrir ekki stærra félag en okkar. 
Með því að starfa í Kvenfélaginu þá erum við að gefa til líknarmála og njóta félagsskapar annara kvenna. Margt er gert fyrir utan bakstur og vinnu, sem sumir halda að sé meginverkefni félagskvenna, en sú er aldeilis ekki raunin. Það er bæði skemmtilegt og gefandi að vera kvenfélagskona. Það góða starf sem unnið er í Kvenfélaginu Gleym mér ei myndi ekki ganga upp nema með öflugum félagskonum og góðum stuðningi samfélagsins.
 
Grundarfjarðarbær óskar kvenfélagskonum til hamingju með daginn og um leið og þeim er þakkað fyrir stuðninginn við samfélagið okkar!