Þjónusta skólastofnana hefur að hluta til raskast að undanförnu. Viðbúið er að þjónusta geti breyst enn frekar á næstu vikum hjá stofnunum bæjarins. Grunnskóla Grundarfjarðar og Leikskólanum Sólvöllum hefur tekist að halda úti starfsemi sinni, þó með breyttu sniði sé vegna aðlögunar að samkomubanni. Ekki hefur verið unnt að halda úti heilsdagsskóla og hjá tónlistarskóla hefur þurft að fella niður hóptíma og hljómsveitaræfingar. Nemendur hafa áfram átt kost á hádegisverði í skólunum. 

Þegar kemur að þjónustugjöldum, þá er meginviðmiðið að ekki verður innheimt fyrir þjónustu sem ekki er innt af hendi. Leiðrétt verður fyrir þá þjónustu sem skerðist á tímabilinu 16.-31. mars 2020 og inneign látin ganga upp í þjónustu á næstu mánuðum. 

Fyrirkomulag reikninga vegna þjónustu í apríl verður þannig að sendir verða reikningar fyrir apríl vegna leikskólagjalda og skólamáltíða. Ekki verða sendir út reikningar vegna heilsdagsskóla, enda liggur sú starfsemi niðri. Foreldrum leikskólabarna býðst að hafa börnin sín heima, á meðan auglýsing heilbrigðisráðherra um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar er í gildi. Leikskólagjöld falla þá niður fyrir þann tíma sem barn er heima og nýtir ekki þjónustuna. Miðað er við heilar vikur. Tilkynna þarf leikskólastjóra um þetta í netfangið solvellir@gfb.is Hafi foreldrar þegar tilkynnt um slíkt verður tekið tillit til þess við reikningagerð nú um mánaðamótin, en annars verða gjöld maímánaðar lækkuð með hliðsjón af dvalartíma í apríl.