Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson

Tilkynning um endurskoðun skólastefnu

Bæjarstjórn hefur samþykkt tillögu skólanefndar um að endurskoða skólastefnu Grundarfjarðarbæjar frá árinu 2014. Ásgarður skólaráðgjöf mun hafa umsjón með verkefninu ásamt stýrihópi, sem bæjarstjórn hefur skipað.

Verkefnið er fólgið í því að greina núverandi stöðu á gildandi skólastefnu og skólastarfi, móta nýja stefnu sem fær heitið menntastefna, en í henni verður sett  framtíðarsýn með skýrum viðmiðum um gæði skólastarfs. Samhliða endurskoðun verður gerð þriggja ára innleiðingaráætlun og aðgerðum forgangsraðað. 

Hér er hlekkur á gildandi skólastefnu frá 2014.

Ný menntastefna tekur til starfsemi allra skólastiga hjá sveitarfélaginu, þ.e. leik-, grunn- og tónlistarskóla. 

Rík áhersla er lögð á samráð við starfsfólk, nemendur, foreldra og aðra íbúa sveitarfélagsins við endurskoðun skólastefnunnar, enda grundvöllur þess að sem mest sátt ríki um stefnuna að fólk hafi tækifæri til að meta stöðuna og leggja sitt af mörkum.

Markmiðið er að ný menntastefna verði tilbúin í haust .

Bæjarstjórn hefur skipað stýrihóp til þess að halda utan um verkefnið undir verkstjórn ráðgjafa Ásgarðs. Stýrihópinn skipa:

  • Loftur Árni Björgvinsson, formaður skólanefndar,
    - til vara Signý Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi.

  • Ágústa Einarsdóttir, bæjarfulltrúi,
    - til vara Davíð Magnússon fulltrúi í skólanefnd og varabæjarfulltrúi. 

  • Margrét Sif Sævarsdóttir, skólastjóri Leikskólans Sólvalla. 

  • Sigurður Gísli Guðjónsson, skólastjóri Grunnskóla Grundarfjarðar,sem er jafnframt skólastjóri tónlistarskóla.

  • Með hópnum starfar Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri, sem jafnframt er starfsmaður skólanefndar.

Stýrihópur mun á næstu mánuðum greina gögn og eiga samtal og samráð við starfsfólk, nemendur og íbúa til þess að kalla eftir hugmyndum, markmiðum og leiðum um menntamál til mótunar metnaðarfullrar framtíðarsýnar í nýrri menntastefnu.

Frekari upplýsingar um verkefnið veitir Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson ráðgjafi í Ásgarði með netfangið gunnthor@ais.is eða í síma 699-1303.

Með von um gott samstarf og góða þátttöku

Stýrihópur um endurskoðun skólastefnu Grundarfjarðarbæjar