Íþróttamaður Grundarfjarðar 2019 Margrét Helga Guðmundsdóttir
Íþróttamaður Grundarfjarðar 2019 Margrét Helga Guðmundsdóttir

Tilnefningar til Íþróttamanns Grundarfjarðar 2021

Þrjár tilnefningar bárust til kjörs á íþróttamanni Grundarfjarðar árið 2021 og verða úrslitin gerð kunn við hátíðlega athöfn í Sögumiðstöðinni á gamlársdag, föstudaginn 31. desember kl. 10:00.  Vegna samkomutakmarkana verður bein útsending frá viðburðinum.

Tilnefningar bárust frá knattspyrnudeild UMFG, Hestaeigendafélagi Grundarfjarðar og Skotfélagi Snæfellsness og eru eftirtalin tilnefnd:

 

Breki Þór Hermannsson - UMFG Knattspyrnudeild/Kári - Knattspyrna

Breki Þór hefur spilað knattspyrnu með 2. deildarliðinu Kára á Akranesi  og með 2. flokki sameiginlegs liðs ÍA-Kára-Skallagríms en Breki Þór stundar nám í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Hann spilaði 17 deildar og bikarleiki með Kára og var m.a. valinn efnilegasti leikmaður Kára á nýafstöðnu tímabili. Breki Þór hefur verið frábær fyrirmynd innan vallar sem utan og stóð sig vel á einstaklingsæfingum þegar ekki var hægt að stunda æfingar með hópnum vegna Covid-19 heimsfaraldursins.

 

Dagný Rut Kjartansdóttir - Skotfélag Snæfellsness – Riffilskotfimi/Leirdúfuskotfimi

Dagný Rut hefur bætt sig mikið sem skotmaður og hefur tekið þátt í öllum mótum sem hún hefur haft tök á að mæta á.   Hún býr yfir aðdáunarverðri elju sem keppnismanneskja og leitar sífellt eftir því að ná sem bestum árangri. Vegna Covid-19 heimsfaraldursins var minna um mót en í venjulegu ári. Þrátt fyrir það hefur hún tekið þátt í þeim mótum sem hafa verið í boði og þá keppt bæði í karla- og kvennaflokki.  Hún stóð uppi sem sigurvegari í flokki kvenna í árlegu Sjómannadagsmóti félagsins í leirdúfuskotfimi. Dagný Rut hefur sinnt íþróttinni vel og hún á sannarlega bjarta framtíð fyrir sér í greininni.

 

Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir -  Hestaeigendafélag Grundarfjarðar - Hestamennska 

Harpa Dögg hefur verið í fremstu röð undanfarin ár í sínum aldursflokki, en hún er fimmtán ára. Hún keppir í Meistaradeild Líflands og æskunnar sem er keppni í efsta standard í þessum aldurshópi og þar sigraði hún fjórgangskeppnina með glæsibrag. Á Fjórðungsmóti Vesturlands sem var stærsti viðburður i gæðingakeppni sumarið 2021 var hún í úrslitum í unglingaflokki og var auk þess í 1. - 2. sæti í tölti. Á Reykjavíkurmeistaramóti, sem er WR mót og eitt stærsta mót ársins, var Harpa í úrslitum í öllum þeim greinum sem hún tók þátt í og er því svo sannarlega búin að stimpla sig inn röð sterkustu knapa í sínum aldursflokki. Síðastliðin þrjú tímabil hefur Harpa Dögg verið valin til að taka þátt í hæfileikamótun Landssambands hestamanna en þar eru sterkustu knapar á aldrinum 14-17 ára saman í afrekshóp sem jafngildir landsliðshópi fyrir þennan aldurshóp. Harpa Dögg þjálfar sín hross sjálf og leggur mikinn tíma, metnað og ástríðu í vinnuna.