Framhaldsskóli Snæfellinga tekur til starfa haustið 2004

Það er svo sannarlega ástæða fyrir Snæfellinga að fagna í dag og hefur fáni verið dreginn að húni hjá helstu stofnunum bæjarins, en eftirfarandi fréttatilkynning kom frá Menntamálaráðuneytinu í morgun: 

Samkomulag hefur tekist milli menntamálaráðherra og fulltrúa sveitarfélaga á Snæfellsnesi um að hafinn verði undirbúningur að stofnun framhaldsskóla á norðanverðu Snæfellsnesi. Gert er ráð fyrir að skólinn verði staðsettur í Grundarfirði.  Lögð  verður áhersla á að þessi nýi framhaldsskóli verði leiðandi  í  notkun  upplýsingatækni  og  nýti  sér  m.a. kosti dreifnáms. Sérstaða hans verði að námið fari fram bæði staðbundið og í fjarnámi.

 

Gert er ráð fyrir að skólinn verði í leiguhúsnæði til að byrja með. Stefnt er því að starfsemi hans hefjist haustið 2004 og þá þegar verði tvö fyrstu ár  bóknámsbrauta  í  boði.  Skólinn  taki  þá  við nýnemum á fyrsta ár og nemendur á öðru ári verði m.a. þeir nemendur sem hafa stundað nám á fyrsta ári í framhaldsdeildum á Snæfellsnesi.

 

Samkomulag  aðila  felur  í  sér að fljótlega verði ráðinn starfsmaður til þess að undirbúa stofnun og rekstur skólans. Menntamálaráðherra mun beita sér fyrir  því  að fjármagn til reksturs skólans verði tryggt á fjárlögum ársins 2004.

                           Menntamálaráðuneytið, 6. febrúar 2003.

Til hamingju Snæfellingar, nú hefur náðst merkur áfangi í þessu mikilvæga máli. Framhaldsskólanefndin, sem í voru; Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfirði, Sveinn Elínbergsson, Snæfellsbæ og Eyþór Benediktsson, Stykkishólmi, hefur unnið ötullega að undirbúningi stofnunar framhaldsskóla, ásamt forsvarsmönnum sveitarfélaganna og er það grunnur að þeirri uppbyggingu sem nú er fyrir höndum.