Í ár kemur það í hlut Tónlistarskólans í Grundarfirði að halda Tónvest tónleika sem er árlegt samstarfsverkefni tónlistarskóla á Vesturlandi. Snið tónleikanna/verkefnisins er þó svolítið frábrugðið því sem verið hefur undanfarin ár en í þetta sinn er það styrkt að hluta af Menningarráði Vesturlands. 

 

 

 

Ákveðið var að safna saman völdum nemendum úr hverjum skóla og mynda 25 til 30 manna hljómsveit sem kemur saman í æfingabúðum í Grundarfirði helgina 29. feb  til 2. mars. Þar æfir sveitin verk sem voru sérstaklega útsett af Marteini Markvoll tónlistarkennara í Stykkishólmi en það samanstendur af tíu íslenskum þjóðlögum. Verkið verður flutt í heimabæ allra tónlistarskólanna sem að Tónvest koma og verða tónleikarnir sex talsins. Þeir fyrstu verða sunnudaginn 2. mars kl.14:00 í sal FSN, Fjölbrautaskóla Snæfellinga, þar sem einnig mun koma fram skólahljómsveit Tónlistarskóla Grundarfjarðar en síðar sama dag verður verkið flutt á tónleikum í Ólafsvík . Helgina 8. til 9. mars eru svo skipulagðir tónleikar hljómsveitarinnar í Stykkishólmi, Búðardal, Borgarnesi og Akranesi.

Óhætt er að segja að um mjög metnaðarfullt og áhugavert verkefni er að ræða og eru bæjarbúar, nemendur sem foreldrar, hvattir til að mæta  og missa ekki af þessum viðburði.

 

Fyrstu tónleikarnir verða sem fyrr segir í sal FSN, Fjölbrautaskóla Snæfellinga, kl.14:00 og er aðgangur ókeypis. Hljómsveitarstjóri er Anna Björk Nikulásdóttir.