Stjórn UMFG og bæjarráð fyrir utan Borgarbraut 18, 27. janúar 2021.
Stjórn UMFG og bæjarráð fyrir utan Borgarbraut 18, 27. janúar 2021.

Ungmennafélag Grundarfjarðar fékk í byrjun vikunnar afhent húsnæði sem nýtt verður fyrir nýstofnaða rafíþróttadeild félagsins. Húsnæðið er að Borgarbraut 18,  í eigu Grundarfjarðarbæjar, og er stefnt á að taka það í notkun fljótlega. Húsið hýsti félagsmiðstöð unglinga síðustu árin, en sú starfsemi flyst nú í grunnskólann og nýtir jafnframt annað húsnæði bæjarins.  

Það var snemma á síðasta ári sem Ungmennafélagið hóf vinnu við stofnun rafíþróttadeildar og er sú vinna langt komin. Búið er að kaupa tölvubúnað og nú í vikunni hófu félagar í Ungmennafélaginu að undirbúa aðstöðu í húsinu. Fundað hefur verið með Símanum um nettengingar í húsið, en öflugar tengingar þarf fyrir búnaðinn sem nýttur er í rafíþróttum.
Í vikunni var jafnframt haldinn afar vel sóttur kynningarfundur fyrir foreldra og aðra áhugasama.  Næstu skref eru að ganga frá ráðningu þjálfara. Það eru því spennandi tímar framundan hjá ungmennum í Grundarfirði. Rafíþróttir eru orðnar æ algengari og eru rafíþróttadeildir að spretta upp víðsvegar um landið hjá íþróttafélögunum, eins og fram kom í frétt RÚV fyrir skemmstu.

Síðastliðinn miðvikudag hitti bæjarráð stjórn UMFG í nýju aðstöðunni þar sem farið var yfir málin.