Laugardaginn 20. maí sl. var haldinn umhverfis- og menningardagur Grundfirðinga. Dagurinn var haldinn að tillögu fræðslu- og menningarmálanefndar en einnig höfðu einstaklingar í bænum haft frumkvæði og komið með hugmyndir að dagskrá þessa dags. Hvatt var til almenns hreinsunarátaks og tiltektar í bænum, auk þess sem sérstök menningar- og fræðsludagskrá var í Sögumiðstöðinni.

Þórður Runólfsson skógfræðingur veitti ráð um gróðursetningu og val á plöntum auk þess sem hann var með trjáplöntusölu. Margir voru áhugasamir um kynningu Jóhönnu Halldórsdóttur og Gunnars Njálssonar á heimajarðgerð. Gunnar og Sunna systir hans höfðu svo tekið saman ýmsa punkta um starfsemi Skógræktarfélags Eyrarsveitar ásamt myndum úr starfinu. Skemmtilegar,,fyrir og eftir” myndir sýndu hve trén í Grundarfirði hafa stækkað mikið á skömmum tíma, auk þess sem Gunnar hafði gert samantekt um elstu trén í Grundarfirði. Þessi fróðleikur verður innan tíðar aðgengilegur á bæjarvefnum.

Ingibjörg T. Pálsdóttir og Sigurborg Kr. Hannesdóttir kynntu visthópa sem starfa undir merkjum verkefnisins „Vistvernd í verki“. Sunna Njálsdóttir forstöðumaður bókasafnsins veitti þeim Markúsi Harðarsyni og Pawel Andrzej Koniecznyviðurkenningu fyrir þátttöku í keppninni „Ljóð unga fólksins“ sem er árleg keppni á vegum samstarfshóps um barnamenningu á bókasöfnum landsins. Dagskráin var svo krydduð með tónlistaratriðum. Ólöf Rut Halldórsdóttir nemi í Tónlistarskólanum og Alexandra Sukhova kennarinn hennar, spiluðu á þverflautur, Máni Þorkelsson spilaði á hljómborð og Aníta Rún Ómarsdóttir söng. Fjórar stelpur fluttu tónlistaratriði með söng og leik og miklum tilþrifum, þær Sigurbjörg Ingvarsdóttir, Silja Dagrún Júlíusdóttir, Sólveig Ásta Bergvinsdóttir og Snædís Birta Höskuldsdóttir. Boðið var uppá kaffi og kleinur.

Dagurinn tókst vel þrátt fyrir að kalt hafi verið og mikið um að vera í bænum. Að bæjarbúar brystu í almenna fjöldatiltekt í görðum og á götum, var kannski full mikil bjartsýni, en þó er vonandi að hvatningin skili sér í framkvæmd. Ekki varð betur séð en að gestir í Sögumiðstöðinni hafi a.mk. skemmt sér ágætlega og að margvíslegur fróðleikur hafi læðst með. Reynslan verður nýtt og stefnt að því að endurtaka leikinn að ári. Ég vil þakka öllum þeim sem komu að undirbúningi, sérstaklega Gunnari, Sunnu og Ingibjörgu Torfhildi sem voru í undirbúningsnefnd, sem og Sigurborgu, Jóhönnu og öllu tónlistarfólkinu.

Ég vil í lokin benda á kynningu á stefnumótun bæjarins í skjólskógaræktun ofan þéttbýlisins, sem er að finna á bæjarvefnum. Það er Skógræktarfélag Íslands sem hefur kortlagt og gert tillögur um ræktunina, en endanleg útfærsla á framkvæmd ræktunar, m.a. vali á trjáplöntum og áfangaskiptingu verksins, mun liggja fyrir á næstu vikum. Grundarfjarðarbær og Skógræktarfélag Eyrarsveitar munu standa saman að verkefninu.

 

Björg Ágústsdóttir

bæjarstjóri