Grundarfjarðarbær hefur opnað sérstaka gátt á bæjarvefnum þar sem senda má inn ábendingar um umhverfismál. 

Með því að smella á hnappinn "Umhverfið mitt" á forsíðu bæjarvefsins www.grundarfjordur.is má á auðveldan hátt senda inn ábendingu um atriði sem snúa að frágangi og umhirðu í nærumhverfinu, með texta og/eða myndum. 

Gegnum þessa nýju gátt má senda inn ábendingar nafnlaust eða skilja eftir nafn, netfang og síma, sem getur verið hentugt ef leita þarf frekari skýringa eða upplýsinga hjá þeim sem sendir inn. Skilaboðin fara strax á viðeigandi aðila hjá bænum. 

Það er þakkarvert þegar bæjarbúar láta sig umhverfið varða. Margir mæta í árlegt umhverfisrölt, aðrir senda nokkrar línur eða koma á annan hátt á framfæri ábendingum og skilaboðum um það sem betur má fara í umhirðu og frágangi í nærumhverfinu okkar. Hugmyndir um nýtingu og fegrun svæða koma líka á borð bæjarfulltrúa og starfsmanna bæjarins. Reynt er að halda utan um allar þessar upplýsingar í umhverfisskýrslu sem tekin er fyrir hjá skipulags- og umhverfisnefnd og bæjarráði. 

Upplýsingum um framkvæmdaverkefni bæjarins, fegrun og umhirðu er ennfremur miðlað eftir ýmsum leiðum, m.a. með myndum á Facebook-síðu bæjarins, t.d. um Umhverfisverkefni 2020, eins og einnig var gert með Umhverfisverkefnum 2019

Við hvetjum íbúa og aðra áhugasama að senda inn ábendingar, sem síðan verður reynt að vinna úr - einfaldari hlutum fyrst, en þeir kostnaðarsamari fara til skoðunar við fjárhagsáætlunargerð hvers árs. 

Gerum fallegan bæ enn fegurri!