- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Vorið er komið, það er ekki um að villast. Fuglasöngur og iðagræn tún, löngu fyrir hefðbundinn vitjunartíma.
Vorinu fylgir hin hefðbundna vorhreingerning. Hún getur falist í ýmsu, s.s. að þvo glugga, taka til í bílskúrum og á háaloftum, og svo auðvitað að taka til í garðinum.
Götusópari var á ferðinni í dag og verður eitthvað áfram, uns allar götur hafa verið sópaðar. Hefðbundið er orðið að bærinn sópi götur fyrir (fyrri) fermingu.
Grundfirðingar hafa á undanförnum árum fengið hrós og viðurkenningar fyrir fallegt umhverfi og snyrtimennsku í bænum sínum, bæði þéttbýli og dreifbýli. Það hefur skipt íbúana miklu máli og við höfum lagt metnað okkar í að viðhalda þessari ímynd. Í máli unglinganna okkar hefur komið fram að þau vilja góða umgengni og snyrtilegan bæ.
En þetta er eilífðarverkefni og það þurfa allir að leggja sitt af mörkum til að viðhalda þessu. Hvort sem um er að ræða umhirðu garða, útlit og ástand húsa, fasteignir og opin svæði á vegum bæjarfélagsins, fjörurnar, svæði meðfram þjóðvegum eða allt annað sem lýtur að umhverfinu.
Fyrir skemmstu var hafnarstjórn á rölti um hafnarsvæðin til að taka út öryggismál og gekk þá fram á líkamspart af dýri (kú eða hesti) sem sennilegast hafði verið hent fram af bryggjunni inni á Suðurgarði. Þetta er ekki eina dæmið um ,,sorp” sem enn er hent með þeim hætti, vafalaust í þeirri trú að lengi taki sjórinn við. En sem betur fer er slíkt orðið afar sjaldgæft, enda algerlega úreltur hugsunarháttur og leiðinlegt til frásagnar.
Meirihluti bæjarbúa á hrós skilið fyrir góða umgengni og viðhorf til sameiginlegrar ímyndar okkar um snyrtimennsku og fallegan bæ. Því er hér með komið á framfæri um leið og hvatt er til frekari dáða í vor, sumar og ætíð, við fegrun bæjarfélagsins okkar.