Nú þegar bæjarbúar eru farnið að telja niður dagana fram að bæjarhátíðinni „Á góðri stund“ eru kannski einhverjir að velta fyrir sér hvernig verði með umhirðu og umhverfismál, fyrir og eftir hátíð og á meðan hún stendur.

Fulltrúar bæjarins funduðu með hverfastjórum, þar sem farið var yfir þessi mál.

Í áhaldahúsi er reynt að forgangsraða verkefnum fyrir bæjarhátíð.  Sem dæmi má nefna að beðið verður með slátt á nokkrum stöðum fram í byrjun næstu viku, til að staðan verði sem best um aðra helgi.  Fólk á semsé ekki að þurfa að hafa áhyggjur af einhverju sem á eftir að gera núna, það mun sjást heilmikill árangur í næstu viku.

Stefnt er að því að laga skemmdir graseyjum á Grundargötu eftir snjómokstur og einnig er ætlunin að kaupa og setja niður eitthvað af sumarblómum.

Meðan á hátíðinni stendur mætir vakt frá áhaldahúsinu kl. 7 á morgnana til að þrífa, ásamt götusópara, þannig að bærinn verði orðinn snyrtilegur þegar fólk fer á ról.  Starfsfólks Hátíðarfélagsins sér um umhirðu á hafnarsvæðinu.

Glerbann verður á hátíðarsvæðinu.

Á mánudeginum eftir hátíð, verður svo auka losun á gráu sorptunnunni.

Rætt var á fundinum að ef hverfastjórar hafa óskir um fleiri tunnur í sínum hverfum, þá munu þeir hafa samband við áhaldahúsið.

Svo eru allir hvattir til að taka virkan þátt í frágangi á sunnudag, undir stjórn hverfastjóranna.  Lúið skraut nokkrum dögum eftir hátíð er eins og vondir timburmenn.

Að lokum, þá eru íbúar hvattir til að snyrta til í kringum sig, ekki bara vegna þess að við höldum bæjarhátíð, heldur hefur Grundarfjörður verið talinn snyrtilegur bær og því viljum við halda.  Það er allt hægt, ef allir leggjast á eitt.

Með ósk um góða skemmtun og hreinan bæ!