Á fundi bæjarráðs Grundarfjarðar þ. 25. janúar sl. var samþykkt að halda áfram undirbúningsferli að bygginu íþróttamiðstöðvar í bænum.  Samþykkt var að kalla til ráðgjafar "rýnihóp" sem ætlað er að laða fram sem flest sjónarmið um það hvernig starfsemi og fyrirkomulag verður í íþróttamiðstöðinni.  Gert er ráð fyrir að í rýnihópnum verði m.a. fulltrúar eftirtalinna aðila; leik- og grunnskóla, fjölbrautaskóla, eldri borgara, ungmennafélagsins, almennings, ferðaþjónustunnar, fræðslu- og menningarmálanefndar, íþrótta- og tómstundanefndar, bæjarstjórnar og bæjarstjóri.  Gert er ráð fyrir að Hrönn Pétursdóttir, sem var verkefnisstjóri við mótun og uppbyggingu fjölbrautaskólans, muni vinna með rýnihópnum að verkefninu.

Að auki munu arkitektar frá Funkis arkitektastofu koma að þessari vinnu ásamt Kristni J. Gíslasyni ráðgjafaverkfræðingi.  Tillaga þessa efnis var fram sett af vinnuhópi sem hefur unnið að undirbúningi þessara fyrstu skrefa í byggingu íþróttamiðstöðvarinnar.  Vonast er til þess að rýnihópurinn skili áliti sínu í seinni hluta febrúarmánaðar.  Að mati reynslumikilla aðila í byggingu mannvirkja af þessu tagi, er þessi leið í undirbúningsferlinu talin vænleg til þess að laða fram bestu mögulegu lausnir varðandi staðsetningu, rekstur og fyrirkomulag fjölnota íþróttamiðstöðvar.