Framkvæmdanefnd Grundarfjarðarbæjar vegna undirbúnings að unglingalandsmótinu, sem haldið verður 2009, hefur verið önnun kafin.  Haldnir hafa verið sjö fundir síðan nefndin var skipuð i vetur.  Ráðinn hefur verið byggingafræðingur, Jón Pétur Pétursson, til þess að undirbúa og vinna að verkefnum sem framkvæmdanefndin mun standa fyrir.  Verið er að mæla upp svæði sem ætluð eru fyrir knattspyrnuvelli og fengin hefur verið sérfræðiráðgjöf  vegna lagningu gerviefna á hlaupa- og atrennubrautir á frjálsíþróttavellinum.  Jón Pétur hefur leitt þessa vinnu og samhliða unnið að hönnun vallanna, aðkomuleiða og fleira.  Mikil vinna er framundan hjá framkvæmdanefndinni við hinar ýmsu framkvæmdir sem fara þarf í á þessu ári.

Fyrir utan framkvæmdanefndina starfar svo "landsmótsnefnd" á vegum HSH sem undirbýr mótið sjálft og þær keppnisgreinar sem verða á mótinu.  Landsmótsnefndin undirbýr einnig marga aðra þætti svo sem tjaldsvæðisaðstöðu á landsmótinu í samráði við UMFÍ.  Þessa undirbúnings mun verða vart í Grundarfirði á næstu mánuðum með ýmsum hætti þegar jarðvegsframkvæmdir hefjast og eru íbúar beðnir um að sýna því þolinmæði þó víða verði vélar að störfum.  Það má búast við því að brautir á frjálsíþróttavellinum verði ekki mikið nothæfar í sumar því taka þarf upp úr þeim að hluta og setja nýtt efni í staðinn.  Vonandi mun þetta allt ganga eftir áætlun og verða í góðu lagi.  Fundargerðir framkvæmdanefndarinnar munu innan skamms verða birtar á heimasíðu Grundarfjarðarbæjar.