Bæjarstjórn samþykkti fyrir nokkru að standa fyrir íbúaþingi í vor.  Fyrsta skref í undirbúningi var fundur með fulltrúum félagasamtaka, nefnda og stofnana, sem haldinn var síðastliðinn þriðjudag.  Þar voru hugmyndir að fyrirkomulagi þingsins kynntar og ræddar, en óskað verður eftir hugmyndum að umræðuefnum frá þessum aðilum og samstarfi um framkvæmd þingsins.  Fram komu góðar ábendingar og skemmtilegar hugmyndir sem verður unnið úr frekar.  Nú munu þau sem sátu fundinn, kynna og ræða málið á sínum vettvangi og síðan verður haldinn annar undirbúningsfundur 3. apríl, þar sem lagðar verða fram hugmyndir að umræðuefnum. 

Á kjörtímabilinu hafa verið haldnir þrír íbúafundir sem hafa verið vel sóttir og gagnlegir.  Þeir hafa hins vegar byggst að talsverðu leyti á upplýsingagjöf bæjarstjórnar til íbúa og síðan umræðu í framhaldi af því.  Með íbúaþinginu er verið að snúa þessu við, þannig að íbúarnir verði í aðalhlutverki.  Lögð verður áhersla á virka þátttöku ungs fólks, því þeirra er framtíðin.