Í undirbúningi er að halda íbúaþing í Grundarfirði eins og sagt hefur verið frá hér á vefnum. Það er ráðgjafafyrirtækið ALTA sem hefur verið fengið til að stýra íbúaþinginu, sem mun fjalla um skipulagsmál og fjölskyldustefnu. Stýrihópur verkefnisins hefur tekið til starfa og miðvikudagskvöldið 8. febrúar héldu þær Sigurborg Kr. Hannesdóttir og Hildur Kristjánsdóttir frá ALTA kynningarfund með bæjarstjórn, nefndum og forstöðumönnum stofnana bæjarins.

Frá kynningarfundi í Sögumiðstöð í gær

Mæting var mjög góð og mikill áhugi á viðfangsefninu, en kynnt var hugmyndafræði og framkvæmd íbúaþinga, auk þess sem hópurinn tók þátt í að móta umfjöllunarefni og áherslur í dagskrá þingsins.

Þingið hefur fengið yfirskriftina Bjóðum tækifærunum heim og vísar til þess að samfélagið okkar stendur að vissu leyti á þröskuldi nýrra tækifæra þar sem margt hefur orðið til að bæta búsetuskilyrði á svæðinu; við þurfum hinsvegar sjálf að greiða tækifærunum leið og grípa þau á lofti.