Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, og fulltrúar sveitarfélaganna á norðanverðu Snæfellsnesi undirrituðu síðast liðinn föstudag samstarfssamning um húsnæði nýs framhaldsskóla, Fjölbrautaskóla Snæfellinga, sem tekur til starfa í Grundarfirði næsta haust.

 

Eins og áður hefur komið fram í fréttum frá fjölbrautarskólanum verða farnar nýjar leiðir við nám og kennslu því nemendum mun standa til boða að stunda fjölbreytt nám sem þó verður ekki allt kennt á staðnum heldur sem dreifnám. Skólinn er ætlaður nemendum á Snæfellsnesi sem hingað til hafa þurft að flytja að heiman til að komast í framhaldsskóla. Skólinn verður lítill á mælikvarða flestra framhaldsskóla á Íslandi því nemendafjöldi er áætlaður um 80 í upphafi og að hámarki 170 eftir 4 ár. Vegna smæðar skólans var talið æskilegt að í innra starfi verði upplýsingatækni nýtt til hins ítrasta með möguleikum dreifmenntunar svo námsframboð geti orðið fjölbreytt. Í skólanum verða ekki hefðbundnar kennslustofur en áhersla er lögð á opin rými og nokkur lítil herbergi sem ætluð eru til hópvinnu, einstaklingsvinnu og funda.