Landsbyggðarvinir í Reykjavík og nágrenni standa fyrir  verkefni  fyrir nemendur 12 ára og eldri.  Markmið verkefnisins er m.a. að efla bjartsýni unga fólksin á framtíðina, að unga fólkinu finnist að framlag þess skipti máli og á það sé hlustað, efli þjóðarvitund og að unga fólkið kynnist betur sinni heimabyggð.

Tveir skólar í hverjum landsfjórðungi taka þátt í hvert sinn.  Í Grundarfirði taka nemendur í 9. bekk þátt í verkefninu í ár en Unnur Birna Vilhjálmsdóttir, fyrrum alheimsfegurðardrottning, er verndari verkefnisins.

 Verkefnið er tvískipt og í fyrri hluta þess, sem er einstaklingsvinna, eiga nemendur að skila ritgerð um heimabyggð sína.  Í ritgerðinni eiga unglingarnir að gaumgæfa málefni byggðar sinnar, velta fyrir sér framtíðarmöguleikum hennar og gera sér grein fyrir hvað þeir geti lagt af mörkum í því efni.  Í seinni hluta verkefnisins vinna nemendur saman að einhvers konar útfærslu eða framkvæmd á hugmynd eða hugmyndum úr fyrra verkefni.  Útfærslan er alveg frjáls og fer það eftir hugmyndaríki hópsins.

Nemendur 9.bekkjar hafa skilað fyrri hluta verkefnisins en skilafrestur var 15. desember sl..  Tilkynnt hafa verið úrslit í þeim hluta og ánægjulegt er að segja frá því að nemandi úr Grundarfirði lenti í 3. sæti en það er Anna Júnía Kjartansdóttir.

Grunnskóli Grundarfjarðar  er ákaflega stoltur af vinningshafanum og óskar Önnu Júníu innilega til hamingju með vel unnið verkefni.