Skipulagsvinnan nær til norðari hluta hafnarsvæðis (blátt) og til Framness (grátt) auk Torfabótarinn…
Skipulagsvinnan nær til norðari hluta hafnarsvæðis (blátt) og til Framness (grátt) auk Torfabótarinnar. Miðbæjarsvæðið er gult á þessari mynd, sem er úr greinargerð Aðalskipulags Grundarfjarðarbæjar 2019-2039.

 

Það er ánægjulegt að segja frá því að hafin er deiliskipulagsvinna fyrir hluta hafnarsvæðis og fyrir Framnesið, sem hafnarstjórn og bæjarstjórn ákváðu að láta vinna.

Annars vegar er það endurskoðun á gildandi deiliskipulagi fyrir hafnarsvæði á Framnesi austan Nesvegar, sjá hér, en það svæði verður útvíkkað og látið ná yfir allan Norðurgarð og meira til. Hinsvegar er hafin vinna við nýtt deiliskipulag fyrir Framnes, en ekkert deiliskipulag hefur verið til fyrir svæðið.

Í vor var skipulagsráðgjöfum með góða þekkingu og reynslu af svipuðum verkefnum boðið að gera tilboð í verkið og var í framhaldinu gengið til samninga við Eflu. Skipulagsráðgjafar Eflu í samvinnu við skipulagsfulltrúa bæjarins buðu í upphafi vikunnar öllum lóðarhöfum á Framnesi og þessum hluta hafnarsvæðis til samtals um svæðið. Leitað var eftir þeirra sýn á framtíðarnot og uppbyggingu á svæðinu og þeir hvattir til að taka virkan þátt í skipulagsvinnunni sem framundan er.

Hafnarsvæðið hefur verið í mjög örri þróun og á Framnesi hefur starfsemin sömuleiðis tekið miklum breytingum á síðustu árum, með aukinni þjónustu við gesti og blandaðri starfsemi. Mótun framtíðarsýnar fyrir svæðin tvö byggir á góðum grunni, sem settur er fram í sérstöku rammaskipulagi í nýlegu Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039.

Skipulagsgreinargerð með Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039.

Þar eru hafnarsvæði, miðbær og Framnes skilgreind sem mikilvæg þróunarsvæði til uppbyggingar í bænum og er gott samspil þeirra mjög mikilvægt.

Gert er ráð fyrir að tillaga um skipulag hafnarsvæðisins muni liggja fyrir í haust og vinnunni muni ljúka næsta vor, en vinna við nýtt skipulag Framness muni taka aðeins lengri tíma og ljúki um mitt næsta ár.

Gott skipulag byggir á því að lóðarhafar, íbúar og aðrir hagsmunaaðilar leggi sitt af mörkum og verður þeim boðið að koma að borðinu á mismunandi stigum vinnunnar til þess að koma á framfæri hugmyndum sínum, ábendingum og/eða athugasemdum. Á fundum með lóðarhöfum þriðjudaginn 7. júní sl. komu fram fjölmargar ábendingar og óskir lóðarhafa á svæðunum. Þeim sem ekki gátu mætt þann dag er velkomið að senda skilaboð á skipulag@grundarfjordur.is eða óska eftir samtali.

Við hlökkum til þessarar vinnu og erum spennt að sjá hvernig framtíðarsýn um frekari uppbyggingu þessara tveggja mikilvægu svæða í bænum muni þróast!