Ingi Hans og Björg bæjarstjóri við undirritun samnings í Sögumiðstöðinni í nóvember 2020. Mynd: Rósa…
Ingi Hans og Björg bæjarstjóri við undirritun samnings í Sögumiðstöðinni í nóvember 2020. Mynd: Rósa Guðmundsdóttir

Í nóvember sl. var undirritaður samningur milli Grundarfjarðarbæjar og Inga Hans Jónssonar hjá ILDI ehf. 
Ingi Hans tekur að sér umsjón með hönnun og uppbyggingu samfélagsmiðstöðvar og safnastarfsemi í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði.

Markmið uppbyggingarverkefnisins nú er að Sögumiðstöðin verði líflegt menningar- og samfélagssetur, þar sem húsrýmið að Grundargötu 35 verði nýtt á hagkvæman hátt fyrir fjölbreytta starfsemi. Til Sögumiðstöðvarinnar var stofnað árið 2003 með það að markmiði að efla vitund íbúa um og kynna fyrir þeim sögu svæðisins og menningararf. Sagan og menningin munu áfram eiga heimili í Sögumiðstöðinni. Hugsunin er hins vegar að ýmislegt félags- og menningarstarf íbúanna geti nú einnig farið þar fram. Fastar og tilfallandi sýningar eiga að rúmast í húsinu og laða að íbúa og gesti. Báturinn Brana mun áfram eiga þar örugga vör, en líklegt er þó að sýningarrými muni taka nokkrum breytingum. 

Nýta á sem best þau verðmæti sem felast í húsinu og staðsetningu þess, í hjarta bæjarins, sem og þeim munum sem því tilheyra. Leitast verður við að núverandi starfsemi bókasafns, upplýsingamiðstöðvar, Bæringsstofu og sýninga falli vel að aukinni og breyttri starfsemi.

Ingi Hans mun vinna tillögur, í samráði við hagsmunaaðila, að breytingum í Sögumiðstöð svo hún nýtist íbúum á sem fjölbreyttastan hátt. Ingi mun eiga samskipti við hönnuði vegna breytinga og frágangs, en sjálfur mun hann svo vinna að breytingunum. Ingi er ekki ókunnugur uppbyggingu í Sögumiðstöðinni, þar sem hann var hugmyndasmiður og átti stærstan þátt í að hún varð til á sínum tíma.

Á síðustu árum hefur Grundarfjarðarbær lagt til hliðar fjármuni í sjóð sem ætlaður er menningarstarfsemi í húsinu og verður hann nú nýttur í komandi uppbyggingu. Ætlunin er að uppbyggingarstarfið framundan fari fram með þeim hætti að íbúar geti tekið þátt eða lagt lið með einhverjum hætti. Gert er ráð fyrir að verkið verði unnið í áföngum á næstu 10-12 mánuðum.