Nú er vertíð skemmtiferðaskipa lokið og heimsóknir í sumar voru 13 talsins. Þessi skip voru að samanlagðri stærð 300 þúsund tonn, báru með sér 7200 farþega auk 4000 áhafnarmeðlima. Til samanburðar var samanlögð stærð skipanna árið 2008 221 þúsund tonn, farþegar 6200 og 3000 í áhöfnum. Annað árið í röð tók sérlegur móttökuhópur á vegum hafnarinnar á móti gestum. Hópinn skipuðu nokkrir vaskir Grundfirðingar af yngri kynslóðinni sem skipulögðu skemmtidagskrá samsetta úr víkingaleikjum, matseld, söng og dönsum. Markaðsfulltrúi hafnarinnar, Shelagh Smith, er nýkominn af ferðakaupstefnu í Hamborg, Seatrade Europe, þar sem áfram var unnið að markaðssetningu Grundarfjarðarhafnar. Nú þegar hafa 10 skip verið bókuð fyrir næsta sumar. Að meðaltali eru skipin stærri en undanfarin ár. Stærsta skipið, Ocean Princess, er 77 þúsund tonn. Annars gengur lífið á höfninni sinn vanagang. Afli er þokkalegur. Framkvæmdir við höfnina ganga vel. Vinnu við öldudempandi flái var lokið í síðustu viku og einnig uppsteypu á landstólpa fyrir landgang. Undirbúningur stendur yfir fyrir sjósetningu nýrrar flotbryggju.