Listi yfir framlög til eflingar atvinnuþróunar og nýsköpunar hefur verið birtur hjá Byggðastofnun.  Framlög þessi eru úr sjóði sem ríkisstjórnin myndaði vegna mótvægisaðgerða sinna vegna skerðingar á þorskaflaheimildum.  Eitt fyrirtæki í Grundarfirði fékk úthlutað framlagi sem er Reykofninn ehf.  Framlagði er kr. 2.100.000 og er aðstandendum Reykofnsins ehf. óskað til hamingju og þess óskað að framlagið dugi vel í þeirra merkilega þróunarstarfi.

Svo er önnur hlið á þessum úthlutunum.  Nokkrar aðrar umsóknir fóru frá Grundarfirði sem ekki fengu náð fyrir augum úthlutunaraðila.  Sama var upp á teningnum þegar úthlutað var úr sambærilegum sjóði vegna styrkja til ferðaþjónustuverkefna.  Nokkrar góðar og metnaðarfullar umsóknir voru sendar.  Sumar fengu góða úrlausn, aðrar enga.  Þegar skoðað er hvernig staðið hefur verið að málum í þessum mótvægisaðgerðum öllum má spyrja í fullri vinsemd:  Staðir sem hafa á milli 40 og 50% atvinnuþátttöku í fiskveiðum og vinnslu virðast ekkert sérstaklega vera taldir koma til greina við þessar úthlutanir umfram aðra og hvers vegna er þá verið kenna þessar úthlutanir við mótvægisaðgerðir vegna skerðingar á þorskaflaheimildum?