Samband íslenskra sveitarfélaga og forsætisráðuneytið létu nýlega gera úttekt á upplýsinga- og samskiptavefjum sveitarfélaga, ráðuneyta og ríkisstofnana. Fyrirtækið Sjá ehf. annaðist úttektina, sem var afar umfangsmikil, gerð á 246 vefjum samtals, þar af hjá 71 sveitarfélagi. Vefirnir voru metnir eftir innihaldi, nytsemi og með tilliti til hversu gott aðgengi er að þeim (fyrir fatlaða, sjónskerta, heyrnarskerta).  

Grundarfjarðarvefurinn, www.grundarfjordur.is, kom ágætlega út úr úttektinni; lenti í 11.-18. sæti af 71 sveitarfélagi hvað varðar innihald og af þeim 246 vefjum hjá opinberum aðilum sem skoðaðir voru þá skoraði vefurinn hærra en 77% hinna.

 

Hvað nytsemi varðaði þá lenti vefurinn í 3. – 5. sæti af 71 vef sveitarfélaga. Af þeim ca. 240 vefjum sem Sjá ehf. skoðaði, þá lenti vefurinn í 20. til 35. sæti og skoraði þar með hærra í þessum flokki en 89% þátttakenda.

 

Hvað varðar aðgengi að vefnum þá má hinsvegar gera betur, þar lentum við fyrir neðan meðallag. Ræður þar mestu aldur vefjarins, en mikil þróun er í gerð vefja og síðan vefurinn var settur upp hefur ýmis tækni rutt sér til rúms sem gerir t.d. sjónskertum auðveldara að nota vefi. Hjá bæjarskrifstofu er þegar hafin skoðun á því sem betur má gera með vefinn, en eins og fram kom í frétt fyrir skömmu, þá hefur umferð og notkun á bæjarvefnum aukist um rúm 60% frá síðasta ári.  

 

Sem fyrr þiggja starfsmenn bæjarskrifstofu mjög gjarnan ábendingar lesenda um vefinn, innihald og annað.

 

 

Hér má finna stutta samantekt úr úttektinni.

 

Hægt er að fletta upp niðurstöðum um hvern einasta vef í úttektinni með því að fara hér inn.

 

Hér má finna skýrslu Sjá ehf. í heild sinni (384 bls)