Um 30 manns mættu á íbúafund á vegum Kvarna í samkomuhúsinu í gær. Hér er texti sem unnin var uppúr umræðum og hugmyndum á fundinum: 

Nýtum betur auðlindir, aðstöðu og krafta fólks

 

Á þeim tímamótum sem við stöndum nú frammi fyrir skiptir miklu að vinna saman, vera útsjónarsöm og gera sem mest úr því sem við höfum.  Þetta voru meginskilaboð íbúafundar í Grundarfirði sem haldinn var síðastliðið þriðjudagskvöld, þar sem tæplega 30 manns tóku þátt.

Rætt var um að íbúar megi ekki ætlast til þess að allt frumkvæði komi frá bæjarstjórn, heldur þurfi allir að taka virkan þátt í því skapa „hamingju í heimabyggð“.  Mikið var rætt um samfélagsmiðstöð af einhverjum toga, þar sem væri fjölbreytt aðstaða til tómstundastarfs, sköpunar og samveru fyrir alla aldurshópa, nægt rými og opið hús.  Til dæmis var nefnd fjölbreytt vinnuaðstaða, t.d. fyrir handverksfólk og jafnvel sala á handverki, námskeiðahald og fleira þess háttar.  Nýta ætti húsnæði sem til er nú þegar.   

Fram kom að mikilvægt væri að halda vöku sinni um ásýnd bæjarins, hver og einn taki til hjá sér, einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir.  „Ef við höldum ásýnd bæjarins og umhverfi í góðu horfi  er ánægjulegra að taka á móti gestum og það eykur líka vellíðan okkar sjálfra“.  Þá var rætt um náttúruperlur sem mætti gera aðgengilegri og koma á framfæri bæði við heimamenn og gesti. 

Rætt var um að nú sé komið að því að nýta ýmsar auðlindir sem horft hefur verið framhjá í góðærinu, t.d. mætti koma upp skólagörðum og almennt að byggja meira á tengslum við náttúruna.  Og talandi um náttúru, þá vildi fólk fleiri börn! 

 Nú séu tímar gamalla gilda, ungmennafélagsandinn að ganga í endurnýjun lífdaga og fólk e.t.v. tilbúnara í sjálfboðavinnu.  Rifjað var upp að sundlaugin í Grundarfirði var einmitt byggð í sjálfboðavinnu fyrir 30 árum og því varpað fram hvort mætti safna liði og standa fyrir brýnni endurbyggingu hennar með samstilltu átaki.  Fulltrúar yngri kynslóðarinnar á fundinum bíða spenntir eftir íþróttahúsi, þó svo að byggingu þess hafi verið frestað um sinn. 

 

Það besta sem Snæfellingar geta gert á þessum tímamótum er að auka samvinnu og samnýtingu, ekki aðeins sveitarfélögin, heldur á mjög breiðum grundvelli.  Nú þegar er samvinna á ýmsum sviðum og hana megi auka til muna.  Þar var m.a. nefnt íþróttir og íþróttaþjálfarar, fyrirlesarar, kennarar og eitt sameiginlegur frétta- og auglýsingamiðill fyrir Nesið.  Aukin samvinna muni síðan geta af sér sameiningu sveitarfélaganna „innan frá“, en skilaboð um að stefnt skuli að sameiningu voru mjög afdráttarlaus.  Almenningssamgöngur á norðanverðu Nesinu séu nauðsynlegar og forsenda aukinnar samvinnu og sameiningar, geri svæðið að einu atvinnusvæði og nýtist jafnframt í ferðaþjónustu.  Yngri kynslóðin lét sig dreyma um skíðalyftu og sagði „við höfum bestu fjöllin!“. 

 

Almennt litu fundarmenn svo á að til að rækta enn frekar „hamingju í heimabyggð“ eigi Snæfellingar að líta meira inn á við, leggja áherslu á sjálfbærni og taka virkan þátt í því að nýta auðlindir, aðstöðu og krafta fólksins.  Að vera gerendur en ekki neytendur.