Bæjarhátíðin „Á góðri stund”, sem haldin var í Grundarfirði um helgina, tókst einstaklega vel í alla staði.  Hátíðin hefur fest sig í sessi sem ein besta bæjarhátíð á landinu þar sem lögð er áhersla á að eiga góða stund með vinum og vandamönnum.

 

Hátíðin hófst með því að hverfin, gulur, rauður, grænn og blár settu upp skreytingar á fimmtudagskvöldinu. Á föstudeginum bar svo hæst dansleikur með Pöpunum í Samkomuhúsinu. Á laugardeginum var skemmtun á hafnarsvæðinu samkvæmt venju og dansleikir voru á veitingahúsum um kvöldið.  Hápunktur hátiðarinnar var skrúðganga hverfanna á laugardagskvöld þar sem hverfin gengu skreytt sínum litum niður að hafnarsvæðinu þar sem hverfin sýndu skemmtiatriði.  Veðrið var milt og gott og  hið grundfirska logn sýndi sig og lék stórt hlutverk.

 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni þurfti hún lítið sem ekkert að skipta sér af gleðinni, og ekki meira en gengur og gerist um hefðbundnar helgar. Það má teljast til tíðinda, þar sem íbúafjöldinn í bænum margfaldaðist.

 

Það er Félag atvinnulífsins í Grundarfirði FAG sem heldur hátíðina og sá Jónas Guðmundsson um framkvæmd hennar í ár.

 

Grundarfjarðarbær vill þakka öllum sem lögðu sitt af mörkum til að gera hátíðina jafn glæsilega og raun varð á og síðast en ekki síst að taka virkan þátt í hreinsun bæjarins eftir hátíðina.

 

Innan skamms verða myndir frá hátíðinni settar á vefinn.