Eins og flestum er sjálfsagt kunnugt vinna sveitarstjórnirnar á Snæfellsnesi nú að því að fá vottun frá Green Globe 21 fyrir Snæfellsnes sem sjálfbært samfélag með aðaláherslu á umhverfisvæna ferðaþjónustu. Stjórn undirbúnings að þessu verkefni er í höndum Leiðarljós ehf. og Umís ehf., en fyrirtækin hafa notið aðstoðar stýrihóps frá sveitarfélögunum.

 

Einn fyrirlesturinn var haldinn úti
Í nóvember á síðasta ári komu til Snæfellsness þau Cathy Parsons alheimsforstjóri Green Globe 21 og Sir Frank Moore stjórnarformaður Green Globe 21. Þau buðu fulltrúa frá Snæfellsnesi að koma til Kaikoura á Nýja Sjálandi á fyrstu ráðstefnu Green Globe 21 um sjálfbæra ferðaþjónustu til að kynna Snæfellsnesverkefnið. Boðið kom óvænt og var í fyrstu sýndur lítill áhugi en eftir ítrekaða hvatningu frá Cathy Parsons tóku eigendur Leiðarljóss ákvörðun um að þiggja það.

 

Ráðstefnustaður

Ráðstefnan var haldin í  Kaikoura, sveitarfélagi á stærð við Snæfellsnes, sem er á syðri eyju Nýja Sjálands. Kaikoura nær yfir rúmlega 2000 km2 landsvæði, en stór hluti þess er fjöllóttur og undirlendi frekar lítið. Bærinn sjálfur stendur á nesi og slagorð hans er: “Þar sem fjöllin mæta hafinu.” Íbúar Kaikoura eru um 3.500 en þangað koma árlega 1.2 milljónir ferðamanna, aðallega til að fara í hvalaskoðun eða til að synda með höfrungum og skoða seli.

 

Kaikoura hefur í nokkur ár verið að undirbúa sig undir vottun Green Globe

Guðlaugur Bergmann og Brett Cowan
21, hefur tvisvar mætt viðmiðum þeirra (benchmarking) og stefnir að fullnaðarvottun á þessu ári. Verður það þá fyrsta sveitarfélagið í heiminum til að fá vottun samkvæmt nýjum stöðlum GG21, nema Snæfellsnes nái að verða á undan.

 

Auk þeirra Guðrúnar og Guðlaugs Bergmann frá Leiðarljósi ehf. sóttu ráðstefnuna þau Elín Berglind Viktorsdóttir frá Hólaskóla, en Hólaskóli er umboðs- og úttektaraðili GG21 á Íslandi og Sævar Skaptason framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda, en fjórtán aðilar innan Ferðaþjónustunnar hafa gerst aðilar að vottunaráætlun GG21.

 

Guðrún hélt fyrirlestur á ráðstefnunni og var fundarstjóri á tveimur fyrirlestrum og Guðlaugi bauðst að vera þátttakandi í opnunarathöfn ráðstefnunnar. Þessir fjórir fulltrúar frá Íslandi vöktu því eftirtekt og voru að sjálfsögðu flestir miðað við höfðatölu þjóðanna, en á ráðstefnunni voru fulltrúar frá 12 löndum.  

 

Nuddað saman nefjum

Ráðstefnan var haldin í Takahanga Marae, sem er samkomuhús Maori-anna í Kaikoura. Opnunarathöfnin hófst með POWHIRI sem fólst í því að Maori-arnir buðu gestina velkomna og felldu niður huluna sem yfir þeim hvíldi og gerðu þá að heimamönnum. Þrír aðilar frá Maori ættflokknum ávörpuðu samkomuna og á eftir hverju ávarpi sungu þeir eitt lag. Allt fór fram á tungumáli þeirra.

 

Þegar kom að gestunum hélt fyrstur ræðu Sir Frank Moore stjórnarformaður GREEN GLOBE 21. Á eftir ræðu hans sungu ráðstefnugestir tvö fyrstu erindin í What a Wonderful World. Næst flutti Guðlaugur ræðu og byrjaði á að ávarpa gestgjafana á íslensku. Síðan fjallaði hann um hinn sameiginlega skilning Íslendinga og Maoria á hafinu og landinu sem hefði í gegnum aldirnar veitt þeim lifibrauð.

 

Guðlaugur færði Maori ættflokknum síðan að gjöf svartan stein úr Djúpalóni (með leyfi þjóðgarðsvarðar) og annan hvítan stein (thomsonít) af Mýrunum, ásamt bleikum kóral úr Breiðafirði sem fenginn var í einni skoðunarferð Sæferða. Að því loknu söng Guðlaugur með aðstoð hinna Íslendinganna Ísland ögrum skorið. Vakti söngurinn mikil viðbrögð meðal Maori-anna og annarra gesta ráðstefnunnar, svo og gjafirnar, og komust margir þeirra við.

 

Síðastur til að flytja ræðu var David Simmons prófessor við Lincoln háskóla í Christchurch, en hann hefur unnið að GREEN GLOBE verkefninu í Kaikoura með íbúum sveitarfélagsins. Að lokinni hans ræðu voru 3. og 4. erindið í What a Wonderful World sungin. Eftir það heilsuðust ræðumenn beggja hópa á hefðbundinn Maori hátt með því að leggja saman nefin, horfast í augu og deila andardrættinum. Þannig voru gestirnir orðnir hluti af heimamönnum.

 

Endapunkturinn fólst svo í því að deila saman mat og buðu Maori-arnir upp á kaffi og meðlæti. Ekki mátti taka myndir á meðan á athöfninni stóð.

 

Framlag Íslands til ráðstefnunnar

Rétt er að geta þess að á ráðstefnunni voru fluttir um 35 fyrirlestrar í þremur mismunandi salarkynnum samtímis. Uppsetningin gerði það að verkum að töluvert dreifðist úr þeim 130 ráðstefnugestum sem þarna voru.

 

Fyrirlesturinn um verkefnið á Snæfellsnesi vakti hins vegar það mikla athygli að 50-60 áheyrendur sóttu hann. Áhugi manna birtist svo í fjölda fyrirspurna að honum loknum og þau gögn og það kynningarefni sem lá frammi um Ísland og Snæfellsnes hvarf eins og dögg fyrir sólu.

 

Ljóst er af því sem fram kom á ráðstefnunni að sveitarfélögin á Snæfellsnesi eru í algjöru forystuhlutverki hvað varðar vottun sveitarfélaga/samfélaga. Framtíðarstefna sveitarfélaganna vakti mikla athygli, einkum og sér í lagi fyrir það hversu víðtæk og framsækin hún er.

 

Fyrstur til að tryggja sér eintak af henni var Jim Abernethy JP, bæjarstjóri Kaikoura. Kynningin á verkefninu leiddi m.a. til þess að þeim Guðrúnu og Guðlaugi var sérstaklega boðið að koma til Dunedin, borgar sem er sunnarlega á suðureyjunni, til að ræða þar við ferðamálayfirvöld um möguleikann á því að leita eftir vottun fyrir Otago skaga. Þar hefur verið stunduð umhverfisvæn ferðaþjónusta í nokkur ár, m.a. með sela- og fuglaskoðun.

 

Einnig var þeim boðið að koma til Queenstown, en í nágrenni hennar voru margar senur úr Lord of the Rings myndunum teknar. Gestgjafar þar voru hjónin Tonnie og Erna Spijkerbosch sem reka fyrsta Green Globe 21 vottaða gististaðinn á Nýja Sjálandi og var skipst á mjög þýðingarmiklum upplýsingum við þau.

 

Sjálfbær þróun í ferðaþjónustu er framtíðin

Dr. Bill Meade, einn af fyrirlesurunum ráðstefnunnar greindi frá öllum þeim verkefnum í sjálfbærri þróun ferðaþjónustu sem eru í gangi í heiminum í dag og eru þau ótrúlega mörg. Flest verkefnin eru í ákveðnu vinnuferli og stjórnvöld margra landa eins og t.d. Fiji-eyja og Egyptalands, sem eru að vinna að frekari nýsköpun í ferðaþjónustu hjá sér gera það allt undir merkjum sjálfbærrar þróunar.

 

Ferðamálaráðherra Nýja Sjálands sem talaði á ráðstefnunni lagði alla áherslu á að framtíðarstefna ferðamála í hans landi væri byggð á sjálfbærri þróun. Hann hefur stutt framgang GG21 á Nýja Sjálandi en þar eru 140 fyrirtæki þegar í vottunarferlinu. Einn af hverjum tíu íbúum landsins vinnur við ferðaþjónustu og ferðamönnum fjölgar hratt, enda hefur landið fengið mikla auglýsingu í kjölfar Lord of the Rings myndanna.

Greinilega mátti samt ráða af umræðu meðan á ráðstefnunni stóð að litið er til norðurhluta heimsins sem frumherja í umhverfisstjórnun og sjálfbærri þróun tengdri ferðaþjónustu. Snæfellsnes hefur skipað sér í þá framvarðasveit og á ef að líkum lætur eftir að verða fyrirmynd annarra sveitarfélaga víða um heim.

 

Samantekt: Guðrún G. Bergmann