- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Grundarfjarðarbær leitar að kraftmiklum og metnaðarfullum einstaklingi til að annast fjölbreytt verkefni á sviði tækni- og byggingarmála. Í gangi eru mörg spennandi verkefni. Um er að ræða fjölbreytt starf sem býður upp á einstakt tækifæri í lifandi bæjarfélagi í mikilli þróun.
Leitað er að einstaklingi sem hefur brennandi áhuga á tæknimálum og færni til að leiða faglega vinnu við framkvæmdir og viðhald mannvirkja bæjarins.
Þá er kostur að viðkomandi geti einnig sinnt lögbundnu hlutverki byggingarfulltrúa eða sé reiðubúinn að afla sér þeirra réttinda innan umsamins tíma.
Á tæknisviði starfa einnig skipulagsfulltrúi, verkefnisstjóri skipulags- og umhverfismála og aðstoðarmaður sviðsins. Verkefnastjóri tækni- og byggingamála er jafnframt yfirmaður þjónustumiðstöðvar bæjarins.
Starfsaðstaða er í Ráðhúsi Grundarfjarðar.
Yfirumsjón og eftirlit með verklegum framkvæmdum bæjarins, bæði nýframkvæmdum og viðhaldsverkefnum, s.s. við endurbætur fasteigna, gatna- og stígagerð og fráveitumál.
Gerð verk- og kostnaðaráætlana, umsjón með verðkönnunum og útboðsmálum, samningum við verktaka og hönnuði.
Samskipti og upplýsingagjöf um framkvæmdir og verkefni á verksviði starfsmanns.
Önnur tilfallandi verkefni.
Háskólapróf sem nýtist í starfi, s.s. á sviði byggingarmála eða tæknifræði.
Farsæl reynsla af sambærilegum verkefnum.
Reynsla af verkefnastjórnun er kostur.
Metnaður til að vinna vel og framúrskarandi samskiptahæfni.
Frumkvæði, fagmennska, skipulagshæfni og lausnamiðuð hugsun.
Þekking á góðum stjórnsýsluháttum, lögum og reglum er varða starfssviðið er kostur.
Framúrskarandi tölvukunnátta sem nýtist í starfi, s.s. landupplýsingakerfi, teikniforrit, o.fl.
Góð færni í íslensku, í töluðu og rituðu máli, og góð enskukunnátta.
Grundarfjörður er vaxandi þjónustukjarni miðsvæðis á Snæfellsnesi. Íbúar eru um 900. Grundfirðingar búa að einstakri og fjölskrúðugri náttúru og góðu mannlífi. Samfélagið er fjölskylduvænt og umhverfisvænt með blómstrandi íþrótta- og menningarstarfi. Alla helstu grunnþjónustu er hér að finna, m.a. leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla og framhaldsskóla, öflugt íþróttastarf, heilsugæslu, bókasafn, verslanir, kaffihús, veitingastaði og fleira. Börn eru tekin inn í Leikskólann Sólvelli við 12 mánaða aldur og það er enginn biðlisti hjá okkur. Um 2ja klst. akstur er til Reykjavíkur. Að Grundargötu 30 er samvinnurými og skrifstofuaðstaða fyrir störf án staðsetningar.
Sveitarfélögin á Snæfellsnesi eiga með sér öflugt samstarf, m.a. um umhverfismál, þau hafa hlotið EarthCheck umhverfisvottun svæðisins til margra ára og UNESCO viðurkenningu sl. haust.
Í Grundarfirði stendur yfir metnaðarfull og spennandi þróun í skipulags- og umhverfismálum, gerð göngustíga og útivistarsvæða á grunni umhverfisvænnar stefnu í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019 - 2039. Unnið er að þróun veitukerfa með áherslu á blágræna innviði, orkuöflun og orkuskiptum með varmadælutækni, upptöku fasteignaumsjónarkerfis og byggingareftirlitskerfa o.fl.
Sjá nánar: Vefur Grundarfjarðarbæjar
Umsækjendur skulu senda inn ferilskrá ásamt kynningarbréfi, hvoru tveggja á íslensku. Þar skal gera grein fyrir þeirri þekkingu, reynslu og hæfni umsækjanda sem nýtist til að sinna starfinu í samræmi við hæfniskröfurnar sem tilgreindar eru í auglýsingunni. Umsóknir á erlendum tungumálum, án kynningarbréfa eða án ferilskráa verða ekki teknar til greina.
Við ákvörðun um boðun í starfsviðtal verður sérstaklega horft til gæða umsóknargagna.
Öllum umsóknum verður svarað að ráðningu lokinni.
Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags.
Leiguhúsnæði er í boði í sveitarfélaginu. Aðstoðað verður með útvegun húsnæðis, ef til kemur.
Við hvetjum áhugasama til að sækja um, óháð kyni og uppruna.
Umsóknarfrestur er til og með 5. febrúar 2026.
Sótt er um starfið á vef VinnVinn.
Umsjón með ráðningu hafa Auður Bjarnadóttir (audur@vinnvinn.is) og Garðar Óli Ágústsson (gardar@vinnvinn.is).