Á undanförnum árum hefur athyglisverður árangur náðst í umferðaröryggismálum. Það má þó aldrei slaka á þó vel hafi tekist til og því er mikilvægt að benda á tvö atriði sem tengjast öryggi barna okkar í umferðinni. Þrátt fyrir að nú sé daginn tekið að lengja er enn myrkur þegar börn á skólaaldri eru á ferðinni. Því er mikilvægt að nota endurskinsmerki á yfirhafnir, ekki síður hjá fullorðna fólkinu sem með því sýnir gott fordæmi. Sjónarhorn ökumanna er annað en gangandi og hjólandi vegfarenda þegar ferðast er um í myrkri. Ökumenn sjá ekki aðra vegfarendur úr fjarlægð nema að þeir noti ljós og/eða gott endurskin.

Þá er einnig þörf á að skerpa á reglum um að börn undir 150 cm. á hæð mega ekki sitja í framsæti bifreiðar sem búin er öryggispúða. Að sjálfsögðu eiga allir farþegar í bílum einnig að vera spenntir í belti, líka þegar farið er um stuttan veg.

Verum upplýst og örugg í umferðinni.