Nú í upphafi nýs árs er við hæfi að líta um öxl og renna augum yfir farin veg. Árið hefur sótt misjafnlega að okkur. Gleði og sorg, höppum og slysum verið misskipt milli okkar eins og gengur. Fyrir mitt leyti þakka ég traust sem mér hefur verið sýnt til að gegna starfi bæjarstjóra á tímum sem um margt eru óvenjulegir.

 

Á nýliðnu ári tók ný bæjarstjórn við eftir sveitarstjórnarkosningar í lok maí. Úrslit þeirra voru á þá leið að L-listi Bæjarmálafélagsins Samstöðu hlaut 4 bæjarfulltrúa en D-listi Sjálfstæðisfélags Grundarfjarðar og óháðra hlaut 3 bæjarfulltrúa.

 

Frá því að ný bæjarstjórn tók við störfum um mitt ár hefur verið unnið að fjölbreyttum verkefnum þó mestur tími hafi farið í fjárhagsmál. Lögð verður áhersla á samráð við íbúa um hagsmunamál og var haldinn íbúafundur í nóvember í tengslum við vinnu að fjárhagsáætlun nýhafins árs. Fundurinn tókst einstaklega vel og verður framhald á slíkum samráðsfundum.

 

Allt frá efnahagshruninu 2008 hefur fjárhagsstaða bæjarsjóðs verið þröng og bæjarstjórn staðið frammi fyrir erfiðum valkostum í rekstri sveitarfélagsins. Ekki eru horfur á að sú staða breytist í bráð. Það hefur verið mikill ávinningur í því að bæjarstjórn hefur öll staðið saman við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2011.

 

Í nýsamþykktri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir lægri tekjum en á liðnu ári en allur kostnaður hefur aukist. Brugðist verður við með því að draga úr þjónustu þar sem þess er kostur og leita allra leiða til hagræðingar í rekstri. Það er eindreginn vilji bæjarstjórnar að slíkar aðgerðir bitni sem minnst á þjónustu við íbúa, þó hjá því verði ekki komist að einhverju leyti. Lögð verður áhersla á að halda uppi metnaðarfullri þjónustu við börn og unglinga. Í því sambandi má nefna að bæjarstjórn samþykkti að stofnuð verði lúðrasveit yngri nemenda við Tónlistarskólann.

 

Fjárhagsstaðan gerir það að verkum að mun minna verður um nýframkvæmdir á vegum sveitarfélagsins en óskandi væri. Viðhaldi eigna verður áfram sinnt eins og kostur er.

 

Undir lok liðins árs var haldinn fundur með forsvarsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur um hitaveitu í Grundarfirði. Ljóst er að við núverandi aðstæður er ólíklegt að væntingar Grundfirðinga um hitaveitu verði að veruleika á næstunni.

 

Nú um áramótin tóku sveitarfélög yfir málefni fatlaðra af ríkinu en unnið hefur verið að þessum flutningi um langt skeið. Við tilflutninginn mun Grundarfjarðarbær, í samstarfi við önnur sveitarfélög á Vesturlandi taka yfir þjónustu við fatlaða íbúa. Ástæða þess að sveitarfélög taka yfir þjónustu við fatlaða einstaklinga af ríkinu er sú að flestir telja að sveitarfélögin geti gert enn betur en ríkið í þjónustunni þar sem þau reka nærþjónustu við íbúana. Mikill metnaður er hjá sveitarfélögum að vel takist til með flutninginn.

 

Á bæjarstjórnarfundi í desember var samþykkt að stofna starfshóp til að leita aukinnar hagræðingar í rekstri skólastofnana bæjarins með það að leiðarljósi að standa vörð um metnaðarfullt skólastarf. Miklar væntingar eru bundnar við starf hópsins.

 

Bæjarstjórn hefur lagt áherslu á mikilvægi samstarfs sveitarfélaga á Snæfellsnesi og er þess vænst að hægt verði að sameinast um einhver verkefni í náinni framtíð. Samstarf sveitarfélaga á Snæfellsnesi er gott og er Fjölbrautaskóli Snæfellinga og Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga dæmi um samstarfsverkefni sem hafa tekist vel.

 

Á milli jóla og nýárs var haldinn fundur með nemendum frá Grundarfirði sem stunda framhaldsnám utan Grundarfjarðar, hvort sem það er fjarnám eða staðbundið nám. Þessi fundur var vel sóttur og var einkar ánægjulegt að heyra hversu fjölbreytt nám ungt fólk er að stunda. Þá jók það enn á bjartsýni þegar fram kom hjá flestum að þeir hefðu hug á að koma aftur heim að námi loknu ef atvinnutækifæri væru fyrir hendi.

 

Menningarlíf er með blóma í Grundarfirði. Tónlistin er þar öflugust og endurvakning á Leikklúbbi Grundarfjarðar fyrir liðlega ári síðan er glæsilegt framtak ungs fólks í byggðarlaginu. Menningarhátíðin „Rökkurdagar“ sem haldin var á haustmánuðum tókst einstaklega vel og ljóst að hátíðin hefur fest sig í sessi.

 

Frá áramótum verða breytingar á opnunartíma bæjarskrifstofunnar, en opið verður kl. 10-14 alla virka daga. Við væntum þess að þetta komi ekki að sök og eftir sem áður er það markmið allra starfsmanna sveitarfélagsins að veita íbúum eins góða þjónustu og kostur er.

 

Þó rekstur sveitarfélagsins sé þungur um þessar mundir er engin ástæða til svartsýni. Það mun birta til. Tækifærin eru fyrir hendi en við verðum sjálf að sjá þau og grípa.

 

Grundfirðingum öllum óska ég gæfu og gleði á nýju ári.

 

Björn Steinar Pálmason

bæjarstjóri