Nú í lok árs 2013 eru sérstök tímamót hjá Grundarfjarðarbæ. Árið hefur verið viðburðaríkt og góðum árangri hefur verið náð á mörgum sviðum.

 

Undanfarin ár hefur mikil orka farið í að endurreisa fjárhag sveitarfélagsins svo það hafi burði til að takast á við ný verkefni. Með samstilltu átaki bæjarstjórnar, starfsfólks og íbúa Grundarfjarðar hefur okkur tekist að snúa fjárhag þess þannig að jafnvægi hefur verið náð í rekstrinum. Það er undirstaða uppbyggingar næstu ára. Rekstrarafgangur verður á þessu ári og áætlanir ganga út á að svo verð næstu árin. Skuldir sveitarfélagsins munu fara niður fyrir lögbundið hámark mun fyrr en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Á fyrstu vikum nýs árs lýkur formlegu samstarfi Grundarfjarðarbæjar og Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga vegna fjárhagslegrar úttektar á sveitarfélaginu árið 2012.

Á árinu var unnið að fjölbreytum verkefnum sem endranær. Eins og undanfarin ár skiptir mestu máli að fá niðurstöðu í viðræðum við Orkuveitu Reykjavíkur um hitaveituvæðingu en samningur þar að lútandi var undirritaður árið 2005. Það ferli hefur verið hægara en við hefðum kosið en um er að ræða mikla hagsmuni fyrir Grundfirðinga og skiptir máli að vanda vel til verka.

 

Enn fer mikill tími í varnarbaráttu við ríkisvaldið og má þar nefna niðurskurð í heilbrigðisþjónustu og löggæslu. Mikilvægt er að halda vöku sinni og gæta þess að þegar ríkið dregur úr þjónustu sinni, þá dreifist niðurskurður sem jafnast yfir allt landið. Jafnframt er mikilvægt að fylgjast náið með málefnum framhaldsskólanna. Þetta eru stærstu mál samfélagsins gagnvart ríkinu og hefur hvergi verið gefið eftir til að standa vörð um þessa málaflokka.

Á árinu urðu þær breytingar í yfirstjórn sveitarfélagsins að samstarfi við Snæfellsbæ um kaup á þjónustu skipulags- og byggingarfulltrúa var hætt enda var það hugsað sem tímabundin lausn, og samið var við Stykkishólmsbæ um að ráða sameiginlega starfsmann í þetta embætti. Það fyrirkomulag hefur reynst vel og mun embætti skipulags- og byggingarfulltrúa verða mun öflugra fyrir vikið. Einnig var ráðinn menningar- og markaðsfulltrúi eftir nokkurt hlé en verkefni á þessu sviði eru mjög vaxandi.

Í skólamálum ber hæst að hafin er vinna við gerð skólastefnu sem lokið verður við næsta vor. Lögð hefur verið áhersla á að efla skólastarf m.a. með spjaldtölvuvæðingu grunnskólans. Grunnskóli Grundarfjarðar er í fremstu röð grunnskóla í nýtingu upplýsingatækni.

Breytingar voru gerðar á húsnæði Sögumiðstöðvarinnar og flutti bókasafnið þangað á haustdögum. Starfsemi í húsinu hefur tekið breytingum þar sem það er ekki bara safn heldur lifandi miðstöð fyrir félagsstarf og menningarlíf. Safninu verður tryggð góð aðstaða með viðbyggingu og er gert ráð fyrir að hefja þá vinnu á komandi ári.

Á næstu mánuðum mun bæjarskrifstofan verða flutt í eldra húsnæði bóksafnsins á Borgarbraut 16 og verður núverandi húsnæði bæjarskrifstofunnar sett á sölu. Með þessu fæst mun betri nýting á húsnæði sveitarfélagsins auk þess sem húsnæði á Borgarbrautinni uppfyllir kröfur um aðgengi fyrir alla.

Í málefnum ungs fólks var sú breyting gerð að félagsmiðstöðin var færð úr skólanum yfir á Borgarbraut 18 og hafa unglingarnir nú fengið „sitt“ hús.

Íþróttafélög með Ungmennafélagið í fararbroddi hafa ávallt staðið fyrir fjölbreyttari íþróttastarfsemi en búast má við í svo litlu samfélagi. Beinn fjárhagsstyrkur sveitarfélagsins til íþrótta á árinu 2014 mun liðlega tvöfaldast frá árinu 2013. Að auki hefur UMFG frjáls afnot af íþróttahúsi og íþróttavelli. Styrkur sveitarfélagsins til íþróttastarfsemi UMFG og annarra íþróttafélaga nemur tugum milljóna króna á hverju ári þegar allt er talið saman.

Í málefnum eldri borgara bar hæst að í samstarfi við Fellaskjól stendur eldri borgurum til boða að fá heimsendan mat alla virka daga. Breytingar voru gerðar á heimaþjónustu sem hafa það markmið að bæta þjónustu við eldri borgara og tryggja stöðugleika í þjónustunni.

Eins og áður var menningarlíf með miklum blóma. Hátíðirnar Rökkurdagar, Á góðri stund og Northern Wave stóðu þar upp úr eins og áður.

Síðustu ár hefur verið lögð áhersla á samræðu við íbúa og hafa verið haldnir tveir íbúafundir á hverju ári. Fyrir stuttu var haldið íbúaþing sem tókst með ágætum og munu niðurstöður þess verða kynntar í upphafi nýs árs.

Samstarf sveitarfélaga á Snæfellsnesi er talsvert. Unnið er að stofnun svæðisgarðs í samstarfi allra sveitarfélaganna, atvinnulífs og félagasamtaka á svæðinu. Samstarfið byggist á sameiginlegri sýn um sérstöðu svæðisins og samtakamætti við að hagnýta sérstöðuna og vernda hana. Nánari upplýsingar um svæðisgarð eru á heimasíðu Grundarfjarðarbæjar.

Verkefnin eru fjölbreytt og góðum árangri hefur verið náð á liðnum árum. Full ástæða er til að horfa bjartsýn til komandi árs.

Ég óska Grundfirðingum og Snæfellingum öllum gleðilegs árs og þakka fyrir samstarfið á árinu 2013.

Björn Steinar Pálmason, bæjarstjóri