Ísafjarðarbær og Héraðsnefnd Snæfellinga eru meðal þátttakenda í nýju verkefni um svokölluð viðburðaskipti sem ber nafnið "Usevenue" og er styrkt af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins. Auk þeirra taka þátt sveitarfélögin Storuman í Svíþjóð, Aviemore í Skotlandi og Hyrynsalmi í Finnlandi en þaðan er

hugmyndin að verkefninu komin.

 

Rúnar Óli  Karlsson, ferðamálafulltrúi Ísafjarðarbæjar og Ásthildu Sturludóttir, atvinnuráðgjafi á Vesturlandi, segja ætlunina að miðla á milli svæðanna viðburðum sem reynst hafi vel á hverjum stað og fara í samstarf um þróun nýrra viðburða. Auk þess sé markmið verkefnisins m.a. að auka þekkingu á skipulagningu viðburða og byggja upp jákvæða ímynd íbúa af sínum heimabyggðum.

 

Allar byggðirnar eru fremur smáar og þær eigi við svipuð vandamál að stríða m.a. stutt  ferðamannatímabil og fjarlægð frá markaði. Því fylgi að fjárfestingar séu illa nýttar stóran hluta ársins. Vinna megi gegn þessu með því að byggja upp viðburði á jaðartímum ferðaþjónustunnar.

 

Fjölmargir árlegir viðburðir eru haldnir í Ísafjarðarbæ og á Snæfellsnesi og hafa            sveitarfélögin því upp á margt að bjóða í samstarfinu. Einnig er fjöldi annarra viðburða sem eiga möguleika á að vaxa með réttri kynningu og skipulagningu.                      

 

Ásthildur Sturludóttir atvinnuráðgjafi á Vesturlandi, segir marga viðburði á svæðinu ekki þurfa svo mikla aukningu í aðsókn til að geta orðið sjálfbærir. "Þessu verkefni er ætlað að kynna viðburði, aðstoða heimamenn við markaðssetningu og þróunarstarf auk þess að efla núverandi viðburði í gegnum alþjóðlegt samstarfsnet. Þar kemur fjöldi fagmanna að með hugmyndir og miðla af sinni reynslu, enda sjá betur augu en auga".               

 

Áætlað er að verkefnið standi yfir í þrjú ár. Rúnar segir marga viðburði, víða um lönd, njóta vaxandi aðsóknar sem vafalítið þættu fremur geggjaðir að óreyndu, t.d. keppni í svokölluðum mýrafótbolta en um 5000 þátttakendur komu til samstarfsbæjarins Hyrynsalmi  til að iðka þessa sérstæðu íþrótt síðasta sumar. Nú er svo komið að mótið getur ekki tekið á móti fleiri þátttakendum og vilja Finnarnir gera það að keppnisröð víðar í Evrópu að sögn Rúnars.

 

Þess má geta að tvö verkefni með íslenskum þátttakendum fengu brautargengi hjá Norðurslóðaáætluninni að þessu sinni og koma vestfirskir aðilar að þeim báðum en eins greint hefur verið frá, tekur Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða þátt í Evrópuverkefni um græna ferðamennsku.