Nú standa yfir viðgerðir á sundlauginni. Í vor hafði gert vart við sig umtalsvert sig í jarðveginum við bakkann við grynnri enda laugarinnar.

Sundlaugarveggurinn var farinn að tútna út og halla inn á við og vöknuðu grunsemdir um að grind laugarinnar væri orðin það fúin, að nú væri hún að gefa sig undan þunga jarðvegarins.

 

Sundlaug Grundarfjarðar var tekin í notkun fyrir 27 árum. Búningsklefar voru byggðir með og urðu þeir jafnframt búningsklefar við íþróttahúsið, sem byggt var síðar.  

Uppbygging laugarinnar er þannig að á trégrind eða ramma laugarinnar eru festir flekar, krossviðsplötur, og að sögn Elisar Guðjónssonar sem var verkstjóri hreppsins á byggingartíma laugarinnar komu flekarnir boltaðir saman á grindinni. Botninn er sandbotn og sundlaugarpokinn situr á honum og tréflekunum.

 

Um langa hríð höfum við Grundfirðingar haft af því nokkrar áhyggjur að ástand sundlaugarinnar væri með þeim hætti að stórtækar viðgerðir eða endurbætur færu að verða óhjákvæmilegar. Óttast var að ef á annað borð væri farið að opna á viðgerðir, gæti farið svo að hreinlega þyrfti að endurnýja alla grindina.

 

Í gærdag var svo farið í að grafa frá bakkanum og opna inn á grindina. Í ljós kom að ástandið var mun betra en búist hafði verið við. Að vísu er grindin farin að láta á sjá, enda um að ræða timbur sem legið hefur í jarðvegi í 27 ár. Sig bakkans orsakaðist af því að jarðvegur hafði komist inn á milli krossviðsplötu og að dúk sundlaugarinnar, bak við flekana. Var það hreinsað og flekarnir styrktir. Ekki reyndist þó nauðsynlegt að endurnýja grindina og hafði smiðurinn Gústi Ívars á orði að hún myndi duga í þó nokkur ár enn.

 

Á sínum tíma unnu starfsmenn hreppsins við byggingu laugarinnar en margir komu að auki að því verki, ekki síst sjómenn, enda var laugin vígð á sjómannadegi árið 1977. Búið er að skipta um sundlaugardúk síðan og árið 1998 voru settir tveir heitir pottar í sundlaugargarðinn.

 

Laugin er kynt með olíu, eins og skólamannvirkin öll. Reksturinn er að því leyti kostnaðarsamur og laugin er einungis opin yfir vor- og sumartímann, fram á haustið. Grundfirðingar bíða í ofvæni eftir því að ,,fá heita vatnið” og víst er að þá opnast ýmsir möguleikar um frekari uppbyggingu og/eða endurnýjun sundlaugarsvæðis.