Ársreikningur Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2012 var staðfestur við síðari umræðu í bæjarstjórn 30. aprí sl.

 

Mikil umskipti hafa orðið í rekstri sveitarfélagsins á síðustu árum en unnið hefur verið markvisst að því að snúa langvinnum hallarekstri við, lækka skuldahlutfall og bæta lausafjárstöðu sveitarfélagsins.

Eins og hjá öðrum sveitarfélögum er rekstri þess skipt í A og B hluta. Í A hluta er starfsemi sem að öllu eða mestu leyti er fjármögnuð með skatttekjum en í B hluta eru fyrirtæki og stofnanir sem reknar eru sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Þar er um að ræða hafnarsjóð, fráveitu, íbúðir aldraðra, leiguíbúðir og sorphirðu og sorpeyðingu.

 

Rekstrarniðurstaða samstæðunnar (A+B hluta) var 108,6 millj. kr. en þar af var leiðrétting vegna gengisbundinna lána 100 millj. kr. Að endurgreiðslunni frádreginni er þetta besta rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins í sjö ár.

Framlegð frá rekstri var 20,3% og hefur aldrei verið hærri og skuldahlutfall, þ.e. skuldir sem hlutfall af tekjum, er nú 180,3% en var 212,5% árið áður. Hæst fór skuldahlutfallið í 257,4% árið 2009. Skuldahlutfall má ekki vera hærra en 150% og ber sveitarfélaginu að ná því marki innan 10 ára. Áætlanir gera ráð fyrir að skuldahlutfall verði komið niður fyrir 150% innan þess tíma.

Veltufé frá rekstri var 125 millj. kr. og hefur það aldrei verið hærra. Afborganir lána voru 41,5 millj. kr. hærri en nýjar lántökur og voru skammtímalán greidd upp á árinu.

Heildareignir voru 1.777,7 millj. kr. og heildarskuldir og skuldbindingar 1.478,8 millj. kr. Þar af voru skuldir við lánastofnanir 1.277,4 millj. kr.

Ársreikningurinn sýnir bætta stöðu Grundarfjarðarbæjar og með sama framhaldi er bjartara framundan í fjármálum en verið hefur. Árangurinn er mörgum að þakka. Íbúar hafa slegið af kröfum um þjónustu, starfsmenn gætt aðhalds í rekstri og stjórnendur bæjarins sett fjármálin í forgang. Þess má geta að síðasta ári var unnin ítarleg úttekt á rekstri bæjarins og staðfesta niðurstöður hennar að búið er að ganga eins langt og kostur er í hagræðingu. Nú reynir á úthald og útsjónarsemi til að halda áfram á sömu braut, allt þar til 150% skuldahlutfalli er náð.

Bæjarstjórn þakkar öllum sem lagt hafa sitt af mörkum til að ná þessum árangri og leggur áherslu á að á næstu árum ræktum við Grundfirðingar með okkur, bæði bjartsýni og raunsæi í fjármálum og rekstri.