Í dag 7. janúar 2005 var húsnæði Fjölbrautaskóla Snæfellinga formlega vígt og tekið í notkun við hátíðlega athöfn í skólanum.

Það er Jeratún ehf., í eigu sveitarfélaganna á Snæfellsnesi, Stykkishólmsbæjar, Helgafellssveitar, Grundarfjarðarbæjar og Snæfellsbæjar, sem byggir húsið og leigir það síðan undir starfsemi Fjölbrautaskólans.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga er yngsti framhaldsskóli landsins, settur í fyrsta sinn hinn 30. ágúst 2004, þá í hluta hússins, en fær nú allt húsnæðið til afnota, alls 1957 m2.

 

Hönnuðir hússins eru VA arkitektar ehf. í Reykjavík, Indro Candi og Sigurður Björgúlfsson arkitektar. Loftorka-Borgarnesi ehf. var aðalverktaki hússins, en nánar verður gerð grein fyrir byggingaraðilum og hönnuðum hússins síðar.

 

Við athöfnina í dag rakti Ásgeir Valdimarsson, formaður stjórnar Jeratúns ehf., byggingarsögu hússins og afhenti Guðbjörgu Aðalbergsdóttur skólameistara „lyklana“ að byggingunni. Séra Elínborg Sturludóttur sóknarprestur í Grundarfirði blessaði húsið og starfsemi þess. Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, flutti ávarp og gerði grein fyrir hugmyndafræði skólans sem er  að ýmsu leyti nýstárleg og þýðingu hennar fyrir skólastarf í landinu. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flutti ávarp og kveðju þingmanna kjördæmisins og minntist þess veruleika sem margar kynslóðir Snæfellinga hafa búið við, að unga fólkið fór að heiman til náms á barnsaldri. Hann rakti ennfremur þýðingu góðra samgangna fyrir verkefni og samstarf eins og um FSN. Kjartan Páll Einarsson, formaður skólanefndar FSN flutti ávarp og Hrönn Pétursdóttir, sem var verkefnisstjóri á undirbúningstíma FSN, rifjaði upp hvernig staðið var að undirbúningi af hálfu menntamálaráðuneytis og annarra, eftir að tekin hafði verið ákvörðun um stofnsetningu skólans. Rakti hún hvernig starfsemin og hugmyndafræði skólans var þróuð, með aðkomu fjölmargra aðila, m.a. hvernig unnin var þarfagreining og forsögn að hönnun skólahúsnæðisins undir stjórn ráðgjafans Susan Stuebing, sem var viðstödd athöfnina í dag, en menntamálaráðuneytið fékk hana til liðs við verkefnið. Ingibjörg Guðmundsdóttir formaður Félags framhaldsskóla og skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík flutti kveðju félagsins, bauð „nýja skólann velkominn í hópinn“ og sagði að skólameistarar fylgdust af áhuga með starfsemi FSN og framkvæmd þeirra nýjunga í skólastarfi sem þar ættu sér stað.

Afhentar voru gjafir, m.a. afhenti Ásbjörn Óttarsson forseti bæjarstjórnar Snæfellsbæjar skólanum málverk að gjöf frá sveitarfélögunum fjórum. Verkið málaði ungur myndlistarmaður, Davíð Örn Halldórsson, sérstaklega fyrir skólann og nefnist verkið Stóriðjan, með skírskotun til þess að líta megi á hinn nýja skóla sem „stóriðju“ Snæfellinga.

Pálína Gísladóttir frá Grundarfirði flutti kveðju fjölskyldu sinnar, sem hafði gefið skólanum andvirði ræðupúlts, til minningar um látinn eiginmann sinn, Halldór Finnsson, sem var oddviti o.m.fl. í Eyrarsveit til margra ára. Púltið var hannað af VA-arkitektum og notað hið fyrsta sinni við vígsluna í dag. Konráð Andrésson forstjóri Loftorku þakkaði gott samstarf við byggingu hússins og færði skólanum að gjöf landakort og stafrænan gagnagrunn frá Landmælingum Íslands. Guðni E. Hallgrímsson f.h. Rafgrundar ehf., færði nemendafélagi FSN að gjöf myndbandsupptökuvél ásamt fylgihlutum frá rafverktökum byggingarinnar.

Tónlistaratriði voru flutt og var þar í lykilhlutverki nýr, forláta flygill sem fjögur útgerðarfyrirtæki færðu skólanum gjafabréf fyrir við skólasetninguna í ágústlok sl. Flygillinn er nú kominn í hús, er hinn mesti kostagripur og hljómaði afar vel í salnum. Gefendurnir voru K. G. fiskverkun ehf. Rifi, Hraðfrystihús Hellissands hf., Soffanías Cecilsson hf. Grundarfirði og Guðmundur Runólfsson hf. Grundarfirði.

Að lokinni athöfninni var gestum boðið að þiggja veitingar í matsal skólans.

 

Skólinn er hannaður með það fyrir augum að hann þjóni sem best skipulagi skólastarfsins. Litið er á öll hin ólíku rými í skólanum sem námssvæði þar sem ýmist geta verið nemendahópar í vinnu undir stjórn kennara, nemendur að vinna verkefni einir eða í hópum með eða án aðstoðar kennara eða nemendahópar að fylgjast með hefðbundnum fyrirlestri frá kennara, sem annað hvort er á staðnum eða miðlar fyrirlestrinum í gegnum eitthvert form upplýsingatækninnar. (Af vef FSN).

 

Sjá myndasafn og umfjöllun um skólann á vefsíðu hans, www.fsn.is

 

Ljósmyndir frá athöfninni verða birtar hér síðar.