Erla Bryndís Kristjánsdóttir landslagsarkitekt hjá Teiknistofunni Eik er nú að leggja lokahönd á  tillögur sínar um aðalskipulag dreifbýlis. Á fundi bæjarstjórnar þann 15. september sl. kynnti hún bæjarstjórn og umhverfisnefnd drög að tillögunum. Farið var yfir áherslur og meginmarkmið með gerð skipulagsins, m.a. um sjálfbæra þróun.

Bæjarstjórn samþykkti að vísa fyrirliggjandi drögum að aðalskipulagi dreifbýlis til umhverfisnefndar til lokayfirferðar. Við vinnslu tillögunnar var leitað eftir sjónarmiðum íbúa/landeigenda í dreifbýli og tillagan var m.a. til umfjöllunar á íbúaþingi í mars sl.

Bæjarstjórn mun svo afgreiða tillöguna frá sér til auglýsingar. Þá hefst ferli þar sem íbúum gefst kostur á að gera athugasemdir við tillöguna áður en hún verður afgreidd endanlega og send Skipulagsstofnun til staðfestingar.