Af starfsemi Vinnuskóla Grundarfjarðar 2025

Vinnuskóli Grundarfjarðarbæjar hefur lokið störfum þetta sumarið. Vinnuskólinn var starfræktur í sex vikur á tímabilinu 10. júní til 17. júlí. Alls voru það um 25 krakkar úr 7. til 10. bekk sem tóku þátt í vinnuskólanum í sumar. Umsjónarmenn voru þær Hallfríður Guðný Ragnarsdóttir, Inga Dóra Sigurbjörnsdóttir og Patrycja Aleksandra Gawor, auk þess sem þau Kristín Halla Haraldsdóttir og Þorsteinn Hjaltason hlupu í skarðið í nokkra daga. Hópstjóri var Gísli Sigurbjörnsson og einnig komu að aðstoð/hópstjórn þeir Einar Bjarnason og Jörundur Nökkvi Steinarsson.

Grunnur vinnuskólans

Vinnuskólinn er sambland af námi og starfi, fræðslu og hvatningu. Starf vinnuskólans snýst því ekki bara um að „reita arfa“, heldur er heilmikið annað sem tækifæri er til að koma inná í starfi með ungmennum sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Áhersla var lögð á eftirfarandi þætti í vinnuskólanum í ár.

  • Vinnuskólinn sem fyrsti vinnustaður ungmenna: Vinnusiðferði og sjálfstæði, verkefni við hæfi.
  • Vinnuvernd: Öryggisfræðsla og þjálfun í víðum skilningi.
  • Umhverfisvitund og umhverfismál: Almennt og hjá Grundarfjarðarbæ.
  • Samfélagið okkar: Vinnustaðaheimsókn, félagsstarf o.fl.
  • Vinnumarkaður: Að verða launþegi og starfsmaður, skyldur og réttindi.

Starfið

Í sumar var í mörg horn að líta og fengu krakkarnir að kynnast hinum ýmsu verkum. Meðal verkefna voru hreinsun á rusli í grjótgarðinum frá Salthúsinu að Bjargarsteini, fegrun á miðbæjarreit, í Þríhyrningi og í Torfabót. Svæðið í kringum hoppubelg var einnig gróðurhreinsað. En þrátt fyrir að vinnuskólinn sé ekki bara að „reita arfa“ þá er samt einnig lagt í nokkra baráttu við illgresið. Þannig var gróðurhreinsað við Torfabótina, Kaffi 59 og við heilsugæslustöðina. Gangstéttir og kantsteinar við hinar ýmsu götur bæjarins voru hreinsaðar ásamt því að umhverfið í kringum Ráðhúsið, Sögumiðstöðina, Fellaskjól, íbúðir eldri borgara og styttuna Sýn var snyrt. Bæklingum með hátíðardagskrá fyrir 17. júní var einnig dreift í hús. 

Vinnuskólinn átti í góðu samstarfi við leikskóladeildina Eldhamra, Leikskólann Sólvelli og Dvalarheimilið Fellaskjól. Allir fengu að fara í heimsókn, kynnast vinnuaðstöðunni og hjálpa til við ýmis verkefni. Einnig gafst tækifæri til þess að leika við börnin og spila við heimilisfólkið á Fellaskjóli. Tókust þessar heimsóknir vel og fengu krakkarnir mikið hrós fyrir sína frammistöðu á öllum stöðum. 

    

     

Vinnustaðaheimsókn

Farið var í heimsókn í flutningafyrirtækið Ragnar og Ásgeir þar sem Þórey Jónsdóttir tók á móti hópnum. Fengu krakkarnir fræðslu um fyrirtækið og helstu verkefni þess, einnig fengu þau að skoða húsnæðið og bílana. Heimsókn sem tókst virkilega vel og þökkum við kærlega fyrir góðar móttökur.

Önnur fræðsla og námskeið

Guðrún Magnea, verkefnastjóri Umhverfisvottunar Snæfellsness, kom og var með fræðslu um það hversu mikilvægt er að huga vel að umhverfismálum og vernda náttúruna. Guðrún Magnea hefur heimsótt vinnuskólann okkar á hverju ári, síðustu árin, með mjög fróðleg og mikilvæg erindi sem krakkarnir voru mjög ánægðir með.

Farið var í heimsókn á Slökkvistöð Grundarfjarðarbæjar og tóku Valgeir Þór Magnússon slökkviliðsstjóri og Óskar Sigurðsson varaslökkviliðsstjóri vel á móti hópnum. Fengu krakkarnir fræðslu um eldvarnir, ásamt því að fá að skoða stöðina, bílana og tækin sem notuð eru við slökkvistarf. Einnig fengu þau tækifæri til þess að klæða sig í eldvarnargalla og prófa brunaslöngurnar, vakti það mikla lukku enda ekki á hverjum degi sem hægt er að fara í vatnsslag með brunaslöngum.

Hópurinn fékk fræðslu um vinnumarkaðinn, að vera launþegi og starfsmaður. Farið var yfir það hvað ferilsskrá er, hvernig launaseðill er uppbyggður, hvernig samið er um kjör á vinnumarkaði og hvernig menntun getur haft áhrif á kjör. Farið var í verkefnavinnu um vinnuumhverfi vinnuskólans, öryggismál og hvað einkennir gott vinnuumhverfi. Einnig var rætt um líkamsbeitingu og rétta líkamsstöðu í vinnu.

Gísli Pálsson frá Rauða Krossinum var með námskeið í skyndihjálp, sem einnig er árlegur hluti af fræðslu vinnuskólans. Farið var yfir helstu þætti þegar kemur að skyndihjálp, mikilvægi þess að þekkja einkenni og geta brugðist rétt við.

   

Leikur

Vinnuskólinn á líka að vera skemmtilegur og það er mikilvægt að brjóta aðeins upp hefðbundnari dagskrá. Þegar mest rigndi var íþróttahúsið nýtt fyrir hópefli og hina ýmsu leiki, þar sem reyndi á færni og samstarf. Síðasta daginn var góðu sumri fagnað með pizzaveislu á Kaffi 59.

 --------

Af nægu var að taka þetta sumarið og mörg mikilvæg verk unnin. Við vonum að vinnuskólasumarið hafi bæði verið fróðlegt og ánægjulegt – og þökkum krökkunum kærlega fyrir samstarfið í sumar. Vinnuskólastjórnendum er sömuleiðis þakkað fyrir sumarið.